Leiðbeiningar um vegi í náttúru Íslands

Vegagerðin og Skipulagsstofnun hafa gefið út leiðbeiningar um vegi í náttúru Íslands, til að hafa til hliðsjónar við kortlagningu og skráningu vegakerfis í náttúru Íslands.

Um er að ræða aðra útgáfu leiðbeininganna sem nú hafa verið endurskoðaðar, m.a. með áherslu um að skýra ferli við gerð skrár um vegi í náttúru Íslands og tengja gerð aðalskipulags, en gerð skrárinnar fer fram samhliða skipulagsferlinu.

Í skrá yfir vegi í náttúru Íslands á að flokka vegi í fjórar mismunandi vegtegundir eftir því hversu greiðfær viðkomandi vegur er, þ.e. í vegtegund F0 (greiðfær vegur), F1 (seinfær vegur), F2 (lakfær vegur) og F3 (torfær vegur). Um er að ræða sambærilega flokkun og Vegagerðin notar við flokkun landsvega samkvæmt vegalögum en á slíkum vegum er almennt gert ráð fyrir árstíðabundinni umferð auk þess sem gera má ráð fyrir minna eftirliti og þjónustu en á öðrum þjóðvegum.
Við flokkun vega skal einnig tiltaka sérstaklega á hvað tíma árs heimilt er að nota veginn eða hvort umferð um hann er takmörkuð við ákveðna tegund ökutækja eða tilgang umferðar, svo sem vegna smalamennsku, veiði, eftirlits og viðhalds orku- og veitumannvirkja eða rannsókna.

DEILA