Landsvirkjun tilkynnti í gær um útboð fyrir Búrfellslund sem hefst á næstu dögum – með fyrirvara um leyfis- og skipulagsmál.
Þetta er óhefðbundið ferli en með því að halda útboð samhliða lokavinnu við skipulag, leyfi og samninga er þeim möguleika haldið opnum að vindorkuverið verði gangsett á árinu 2026. Útboðsferlið og afhendingartími búnaðar er það langur að annars frestast verkið um heilt ár.
Allt að 30 vindmyllur verða í Búrfellslundi, hver og ein með 4-5 MW uppsett afl og samanlögð orkugeta verður um 440 GWst á ári. Rammaáætlun gerir ráð fyrir allt að 120 MW uppsettu afli.
Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að orkuvinnslukerfi Landsvirkjunar sé nú fullnýtt og orkan uppseld. Fyrirsjáanlegt sé að þetta ástand vari þar til hægt er að auka orkuvinnslu. Raforkuorkuvinnslan í dag geti ekki mætt eftirspurn eftir rafmagni fyrir eðlilegan vöxt atvinnulífsins og margboðuð orkuskipti.
Orkubú Vestfjarða fær ekki orku
Á morgun 19. janúar hefst boðuð skerðing Landsvirkjunar til Orkubús Vestfjarða á afhendingu afgangsorku sem mun standa til 30. apríl eða í 103 daga. Á þeim tíma áætlar Orkubú Vestfjarða að það muni brenna 3,4 milljónir lítra af olíu m.a. til þess að keyra katla fjarvarmaveitna á Vestfjörðum sem annars eru kyntar með rafmagni. Kostnaðurinn er áætlaður 520 m.kr.