Landssamband veiðifélaga: lögreglustjórinn á Vestfjörðum vanhæfur – þorir ekki á móti fyrirtæki með pólitísk afl á bak við sig

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga.

Gunnar Örn Petersen, framkvæmdastjóri landssambands veiðifélaga sagði í viðtali við Stöð 2 þann 30. desember sl. að að vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum í máli Arctic Fish væri algjört.

Tilefnið var að lögreglustjórinn hafði tilkynnt að hætt hefði verið rannsókn á sleppingu eldislax úr kví fyrirtækisins í Patreksfirði. Matvælastofnun hafði kært málið til lögreglunnar.

undir hælnum á stórum fyrirtækjum

Gunnar Örn bar lögreglustjóranum á brýn að þekkingarleysi á lögunum og sagði hann auk þess sérstaklega vanhæfur vegna aðstæðna. Það útskýrði hann svona í fréttinni á Stöð 2 samkv. útskrift af henni sem birt er á visir.is:

„Gunnar segir ákvörðunina ekki hafa komið neitt sérstaklega að óvart vegna stöðunnar sem uppi er á Vestfjörðum. „Síðan hefur það sýnt sig líka erlendis að samfélög sem lenda undir hælnum á svona stórum fyrirtækjum verða að nokkru leyti lömuð þar sem embættismenn og íbúar samfélaganna þora ekki að stíga upp á móti fyrirtækjunum og stjórn þeirra. Í þessu tilfelli hafa stjórnendur líka mjög mikið pólitískt afl á bakvið sig og slíkt getur náttúrulega valdið vanhæfi,“ segir Gunnar jafnframt.“

Í öðru viðtali á Stöð 2 í síðustu viku þann 4. janúar endurtók Gunnar Örn þessar ásakanir og nú í spurnarformi og sagðist spyrja sig að því hvort lögreglustjórinn á Vestfjörðum treysti sér ekki til þess að fara með málið áfram gegn fyrirtækinu sem hefði svo mikil völd fyrir vestan

Lögreglustjóri: enginn beitt pólitísku afli

Bæjarins besta innti Gunnar Örn Petersen eftir rökstuðningi hans fyrir því að stjórnendur Arctic Fish hafi pólitísk afl á bak við sig sem valdi vanhæfi lögreglustjórans. Þá var hann einnig spurður að því hvort það væri bara á Vestfjörðum og bara varðandi laxeldisfyrirtæki sem hann sæi aðstæður sem geta haft áhrif á lögreglustjóra. Fyrirspurnirnar voru ítrekuðar í gær en engin svör hafa borist.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, Helgi Jensson segir í svari sínu við fyrirspurn Bæjarins besta að hann væri ekki sammála þessu áliti Gunnars á vanhæfi sínu. Þá hafnaði Helgi því að hafa verið beittur pólitíski afli: „Arctic Fish hefur ekki reynt að beita mig eða aðra starfsmenn embættisins pólitísku afli, hvorki í þessu máli né öðrum.“

 

DEILA