Jón Arnór Stefánsson er formaður stjórnar Þjóðarhallar ehf.

Á myndinni má sjá Lárus L. Blöndal, forseta ÍSÍ, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Dag B. Eggertsson, borgarstjóra og Andra Stefánsson, framkvæmdastjóra ÍSÍ eftir undirritun samningsins

 Samning milli ríkis og Reykjavíkurborgar um stofnun félags, sem mun standa að byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal, Þjóðarhöll ehf var undirritaður í síðusu viku. 

 Í samningnum er byggt á tillögum starfshóps um undirbúning uppbyggingar þjóðarleikvanga í íþróttum. Höllin mun rísa sunnan við Laugardalshöll upp að Suðurlandsbraut og verður 19.000m2 að stærð. Samkvæmt frumathugun framkvæmdanefndar er miðað við að byggingin muni taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 á tónleika. Til samanburðar rúmar Laugardalshöll 5.500 gesti hið mesta.

Einhugur ríkir um að mannvirkið muni nýtast vel sem þjóðarhöll í íþróttum og uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til alþjóðlegra keppnisviðburða. Þjóðarhöllin mun stórbæta aðstöðu fyrir íþróttafélög og skóla í nágrenni Laugardals fyrir kennslu, skólaíþróttir, æfingar og keppni. Þá verður þjóðarhöllin mikilvæg miðstöð fyrir afreks- og almenningsíþróttir og mun nýtast fyrir viðburði tengdum menningu og atvinnulífi.

Þá hefur Jón Arnór Stefánsson, fyrrum afreksíþróttamaður í körfuknattleik verið skipaður formaður stjórnar Þjóðarhallar ehf.

Stjórn Þjóðarhallar ehf. skipa fimm einstaklingar. Ríki og borg tilnefna tvo fulltrúa hvort sem sitja í stjórn ásamt formanni. Þeir eru:

  • Helga Sigurrós Valgeirsdóttir
  • Þórey Edda Elísdóttir
  • Ómar Einarsson
  • Ólöf Örvarsdóttir

DEILA