Ísafjörður: lagt til í þriðja sinn að gera lóðarleigusamning fyrir Suðurtanga 6

Á fimmtudaginn var gerð samþykkt í þriðja sinn í skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar að samþykkja útgáfu lóðarleigusamnings vegna Suðurtanga 6 á Ísafirði. Fer málið til næsta fundar bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Skipanaust er þinglýstur eigandi lóðarinnar og óskaði fyrirtækið eftir því 30. nóvember 2021 að lóðarleigusamningurinn verði endurnýjaður, en hann var gerður árið 1961 og var til 55 ára. Rann samningurinn út í ársbyrjun 2016.

Þær lóðir sem hér er fjallað um eru lóðirnar Suðurtangi 6 (naustið), Suðurtangi 8 (dráttarbraut), og Suðurtangi 7 og tilheyrðu lóðirnar og fasteignir á þeim Skipasmíðastöð Marzellíusar en eru nú í eigu þriggja lögaðila; Skipanaust ehf. á Suðurtanga 8 og Suðurtangi 7 er í jafnri eigu Rörás ehf. og Tanga ehf. Upprunalega voru allar lóðirnar ein og hin sama en með yfirlýsingu frá árinu 1983 var lóðunum skipt upp en að öðru leyti giltu áfram ákvæði lóðarleigusamnings frá árinu 1960.

Fyrst samþykkti skipulags- og mannvirkjanefndin 4.4. 2022 að heimila útgáfu lóðarleigusamnings. Bæjarstjórnin tók málið fyrir 7.4. 2022 og vísaði málinu aftur til nefndarinnar. Næst var málið afgreitt frá nefndinni 25.11. 2022 og þá var lagt til að gera lóðarleigusamning til 10 ára vegna óvissu með framtíð skipulagsmála á Suðurtanga. Bæjarstjórnin var ekki á því og samþykkti í desember 2022 að vísa málinu aftur til nefndarinnar og samþykkti að auki að „hafin verði vinna við endurskoðun deiliskipulags á Suðurtanga íbúðar og þjónustusvæði sem samþykkt var 5. nóv. 2015, m.t.t. þess hvort íbúðabyggð henti á Suðurtanga samhliða þeirri starfsemi sem fyrir er.“

Þriðja samþykkt nefndarinnar um málið var svo á fimmtudaginn, eins og fyrr segir og enn leggur nefndin til við bæjarstjórn að samþykkja útgáfu lóðarleigusamnings vegna Suðurtanga 6 á Ísafirði.

Að þesus sinni segir nefnin: Nefndin leggur áherslu á aðgengi að sjó, um upptökuramp, fyrir kajaka og minni báta, verði tryggt eins og fram kemur í gildandi deiliskipulagi.

DEILA