Ísafjarðarbær: þrjár umsóknir um styrk vegna þorrablóts

Félagsheimilið í Hnífsdal.

Þrjú erindi um styrk vegna þorrablótshalds voru lögð fyrir bæjarráð á mánudaginn.

Kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal óskaði eftir styrk vegna leigu á stólum sem nota á á þorrablóti Hnífsdælinga. Stólarnir eru í eigu Ísafjarðarbæjar og skv. gjaldskrá kostar kr. 26.240 að leigja allt að 100 stóla. Jafnframt er óskað eftir að fá aðstoð frá áhaldahúsinu við að flytja stólana á milli en áætlaður kostnaður við það er kr.29.960 en þá er gert ráð fyrir að tveir starfsmenn vinni í 2 klst. við að flytja stólana á milli. Samtals yrði þetta styrkur upp á kr.56.200.

Segir í erindi Hvatar að kvenfélagið sé líknarfélag, sem er eingöngu rekið í því skyni að safna fé til að styðja og styrkja við fólk og málefni sem þarf á því að halda. Því er óskað eftir styrk frá Ísafjarðarbæ til að mæta þessum kostnaði.

Vísað er í styrkveitingu bæjarráðs til Stútungs, þorrablóts á Flateyri og segir svo: „Viðburðirnir eru sambærilegir, haldnir í sama sveitarfélagi með sama megintilgang, opin skemmtun fyrir fólk á svæðinu þar sem allir eru velkomnir. Þorrablót Hnífsdælinga er eini fasti viðburðurinn sem haldinn er í Hnífsdal árlega og því er ekki mikið um tækifæri til að styrkja menningarlíf í Hnífsdal utan þessa Þorrablóts.“

Þorrablótsnefnd Súgfirðinga sækir um 200.000 kr. styrk fyrir leigu á Félagsheimili Súgfirðinga.

Þriðja erindið er frá þorrablótsnefnd Önundarfjarðar við Holtsblót 2024 og er sótt um styrk að upphæð 150.000 kr fyrir leigu á aðstöðu í Holt-inn.

Bæjarráðið afgreiddi öll þrjú erindin á sama veg og bókaði að bæjarstjóra væri „falið að ræða við umsækjendur um málið með hliðsjón af umræðum á fundinum og jafnframt að endurskoða aðkomu bæjarins að þorrablótshaldi og öðrum fullorðinsskemmtunum í sveitarfélaginu, og leggja drög að reglum fyrir bæjarráð til samþykktar.“

Ekki er nánari upplýsingar veittar um hvað felst í þessari afgreiðslu.

Í síðustu viku samþykkti bæjarráðið að styrkja Stútung, þorrablótið á Flateyri um 284.010 kr. auk kostnaðar við flutning á búnaði sem metinn er 50 – 60 þúsund kr.

DEILA