Ísafjarðarbær: samþykkti skil á olíulóð

Ísafjarðarbær hefur samþykkt skil á lóð við Mjósund í samræmi við tillögu Olíudreifingar. Áhugi er á lóðinni og byggja íbúðir á henni. Vill Ísafjarðarbær því taka við lóðinni. Áður voru olíutankar þarna en þeir voru fluttir fyrir um áratug út á Mávagarð.

Þá kom í ljós við úttekt mengun í jarðveginum og var ákveðið að meðhöndla hana á staðnum , lofta jarðveginn með öndunarrörum og nýta sjávarföll til þess að auka loftskipti.

Í mars 2021 var ástandið kannað og kom þá í ljós að jarðvegurinn var að mestu niðurbrotinn miðað viðkröfur sem gerðar eru til iðnaðarlóða, en á norðausturhluta lóðarinnar var áberandi bensínlykt úr sandlagi sem er á um metersdýpi. Var því beðið með skil á lóðinni. Í nóvember á síðasta ári var gerð önnur athugun og reyndist mengun ekki komin niður fyrir mörk. Virðist ekki vera nægjanleg tilfærsla súrefnis að þessari mengun.

Olíudreifing lagði þá til að sveitarfélagið myndi taka við lóðinni og gæti endurúthlutaða henni en félagið myndi kosta aðgerðir sem þyrfti að ráðast í til að fjarlægja og meðhöndla mengaðan jarðveg. Hefur það orðið niðurstaðan.

DEILA