Hnjótur: eigandi krefst samninga um vatnsréttindi og hótar lögbanni

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti.

Kristinn Þór Egilsson landeigandi að Hnjóti í Örlygshöfn krefst þess að sveitarfélögin Vetsurbyggð og Tálknafjarðarhreppur gangi til samninga við hann um nýtingu á vatnsréttindum á jörðinni fyrir byggðasafnið að Hnjóti, sem er í eigu sveitarfélaganna. Jafnframt er þess krafist að látið verði af nýtingu réttindanna í framtíðinni og virtur eignarréttur hans að eignarlandi umhverfis húsnæði Minjasafnsins. Verði ekki orðið við þessu er hótað aðgerðum svo sem lögbanns.

Tildrögin eru þau að um mitt ár 2013 stóð Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti fyrir borun eftir vatni að Hnjóti og segir í kröfubréfinu að það hafi verið að eigandanum forspurðum. Segir að borholan sé staðsett utan lóðarmarka safnsins.

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps tók erindið fyrir á sundi sínum í síðustu viku og bókað var að fresta afgreiðslu erindisins til næsta fundar safnsins á meðan frekari gagna er aflað.

DEILA