Hnífsdalur: tveggja milljarða króna snjóflóðavarnir

Verkís hefur unnið frumathugun að snjóflóðavörnum í sunnanverðum Hnífsdal undir Bakkahyrnu.

Lagt er til að reisa um 410 m langan og um 6-17 m háan þvergarð ofan við Bakkaveg og um 2,1 km af upptakastoðvirkjum austar í Bakkahyrnu. Heildarefnismagn í snjóflóðavarnargarð er um 110 þús. m3.

Kostnaður við ofanflóðavarnirnar er metinn um 1,7-2 milljarðar króna. Heildarverðmætti varinna eigna á hættusvæði B og C er 1.284 milljónir króna fyrir fasteignamat ársins 2024. Brunabótamat sömu eigna er hins vegar 2.667 milljónir króna.

Hádegissteinn

Ofan við austur hluta byggðar, í um 180 m y.s. situr um 50 tonna bjarg sem kallast Hádegissteinn í fjallshlíðinni en byggðinni getur stafað ógn ef það veltur niður hlíðina.Árið 2017 var lagt til að Hádegissteinn yrði fjarlægður en því var slegið á frest árið 2018 og ákveðið að festa bjargið til bráðabirgða með neti og steyptri undirstöðu. Haustið 2018 voru festingar boraðar við steininn og net lagt yfir hann, til þess að auðvelda öruggt niðurbrot steinsins. Árið 2020 var steypt undirstaða undir bjargið til að auka stöðugleika þess. Aðgerðirnar eru tímabundnar, þar sem enn stendur til að fjarlægja bjargið.

Í skýrslunni segir að mestar líkur á snjósöfnun í upptakasvæðið séu í suðaustanátt með ofankomu sem eru tiltölulega sjaldgæfar á svæðinu og snjókomu í logni. Í algengum N til A áttum skefur úr hlíðinni. Snjóflóðahætta skapist því í svipuðum aðstæðum og í Kubba á Ísafirði. Hlíðin er venjulega snjólétt en gilin sem eru á sunnanverðu fjallinu gætu hjálpað við að takmarka snjósöfnun í toppi hlíðarinnar norðan megin.

Stór hluti norðurhlíðar Bakkahyrnu er mögulegt upptakasvæði snjóflóða (Hættumatsnefnd Ísafjarðarbæjar, 2003). Samkvæmt hættumati Veðurstofu Íslands er eingöngu svæðið í efstu 150 m fjallsins skilgreint sem upptakasvæði vegna snjóflóða en það er talið takmarkað af snjósöfnunaraðstæðum sem geta valdið snjóflóðum.

Einungis fá snjóflóð eru þekkt úr hlíðinni ofan við byggð. Fjögursnjóflóð hafa verið skráð úr Bakkahyrnu
ofan byggðarinnar en snjóflóð fyrir miðja 20. öld voru ekki skráð.

Um þvergarðinn sem lagt er til að verði reistur segir að stærðarákvörðun garðsins sé samkvæmt samevrópskum viðmiðunarreglum. Vegna plássleysis milli hlíðar Bakkahyrnu og húsa er gert ráð fyrir bröttum garði.

Hæð þvergarðs miðast við að stöðva flóð með um 2 000 ára endurkomutíma ofan garðs. Ofan garðs rúmast um 185 þús. m3 af snjó og rúmmál hönnunarsnjóflóða er metið 30-70 þús. m3.

DEILA