Hærra gjald til ríkisins af laxi en þorski

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Fiskeldisgjald af eldislaxi er á þessu ári 13,7% hærra en veiðigjald af þorski.

Fiskeldisgjaldið er á þessu ári 37,80 kr/kg af slægðum laxi og veiðigjaldið fyrir þorsk er 26,66 kr/kg af óslægðum fiski. Sé það umreiknað yfir í slægðan þorsk er veiðigjaldið 33,25 kr/kg. Það er sambærilegt við fiskeldisgjaldið af eldislaxinum 37,80 kr/kg.

Gjaldið í ríkissjóð fyrir eldislaxinn er því 4,55 kr/ kg hærra en fyrir þorskinn sem er 13,7%.

59% hærra gjald á fiskeldinu

Þá á eftir að taka tillit til þess að tvær áfangahækkanir, sem þegar hafa verið lögfestar, eiga eftir að koma til framkvæmda. Önnur hækkunin verður á næsta ári og sú seinni á árinu 2026. Þá má ætla að fiskeldisgjaldið verði orðið 52,92 kr/kg af slægðum eldislaxi miðað við þær forsendur sem gilda um útreiknings gjaldsins fyrir 2024. Veiðigjald af veiðum á villtum fiski í sjó er ákveðið samkvæmt sérstökum lögum og eru ekki í þeim nein ákvæði um frekari hækkun gjaldsins heldur er það tengt afkomu í sjávarútvegi og getur hækkað eða lækkað samkvæmt því. Fiskeldisgjaldið er algerlega ótengt afkomu í eldinu.

Því verður fiskeldisgjaldið fyrir 2026 að óbreyttum lögum 59% hærra en veiðigjald fyrir þorsk að óbreyttri afkomu í sjávarútvegi, mikilvægustu fisktegund landsmanna eða 52,92 kr/kg á móti 33,25 kr/kg. Munurinn verður þá 19,67 kr/kg.

DEILA