Frv um lagareldi: áhyggjur af meðalhófsreglu stjórnsýslu

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur segja í sameiginlegri umsögn um frumvarp um lagareldi, sem er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda að umsagnaraðilar hafi áhyggjur af því að meðalhófsreglu stjórnsýslunnar sé ekki gætt við gerð frumvarpsins.

Bent er á að í frumvarpinu sé margt óljóst, þar sem mikilvæg atriði skulu sett í reglugerð. Af þeim sökum sé erfitt að gera heildstæða umsögn um frumvarpið enda margir óvissuþættir, skortur á upplýsingum og forsendum, þar sem drög að reglugerðum eru ekki komin fram.

Sveitarfélögin segja að þau séu fylgjandi áframhaldandi uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum og leggja
áherslu á að hugað sé að samfélagslegum áhrifum einstakra greina frumvarpsins. Sjókvíaeldi sé ráðandi atvinnugrein á sunnanverðum Vestfjörðum og því geti refsingar og takmarkanir í rekstri sjókvíaeldisfyrirtækja haft mikil neikvæð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif fyrir íbúa og sveitarfélög svæðisins.

Umsagnaraðilar segjast ekki munu leggja mat á hvort tillögur í frumvarpinu um gjaldtöku teljist sanngjörn og í samræmi við umsvif hennar en gjöld af greininni megi ekki koma í veg fyrir frekari tækniframfarir og þróun, enda ætti frumvarpið að leiða til hagrænna hvata til þróunar og innleiðingu framleiðsluaðferða sem minnka neikvæð umhverfisleg áhrif.

Vilja sveitarfélögin að stórum hluta fiskeldisgjalds verði varið beint til sveitarfélaganna til innviðauppbyggingar í stað þriðjungs sem nú er og gera athugasemdir við að sækja þurfi um til sérstaks sjóðs og það fyrirkomulag skapi óvissu og ófyrirsjáanleika.

Skorað er á stjórnvöld að hluti nýrra starfa í eftirliti, vöktun og rannsóknum séu staðbundin og unnin í námunda við framleiðsluna.

Að lokum er lögð áherslu á að lagareldi sé byggt á vísindalegum grunni og vilja sveitarfélögin að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar sé gert hærra undir höfði, sé leiðbeinandi eða bindandi að hluta.

DEILA