Forsetakosningar verða í sumar

Það varð ljóst í gær að forsetakosningar fara fram í sumar. Guðni Th Jóhannesson, forseti tilkynnti þá að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. Líklega verður kosið laugardaginn 8. júní.

Guðni varð hlutskarpastur í kosningunum 2016, en þá lét Ólafur Ragnar Grímsson af störfum eftir 20 ára setu á Bessastöðum.

Alls voru 9 frambjóðendur á kjörseðlinum. Guðni Th Jóhannesson hlaut 39,1% atkvæða. Næst honum kom Halla Tómasdóttir með 27,9% atkvæða. Andri Snær Magnason varð þriðji með 14,3% og Davíð Oddsson hlaut 13,8% atkvæða. Enginn hinna fimm frambjóðenda náði 5% atkvæða.

Í Norðvesturkjördæmi varð Guðni Th. Jóhannesson efstur með 42,1% atkvæða, Halla Tómasdóttir fékk 32%, Davíð Oddsson 14,1% og Andri Snær Magnason 7,2%.

Forsetakosningar fóru einnig fram 2020 og voru þá aðeins tveir frambjóðendur í kjöri, Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson. Vann Guðni Th. yfirburðasigur og fékk 92,2% atkvæða og Guðmundur Franklín fékk aðeins 7,8%.

Í nýársávarpi sínu rifjaði forsetinn upp að hann hefði í upphafi sagt að hann vildi ekki sitja lengur en 8 til 12 ár á Bessastöðum og að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu nú að láta hjartað ráða og að hann kysi frekar að halda sáttur á braut innan tíðar. Í öflugu lýðræðissamfélagi kæmi maður í manns stað.

Guðni Th. Jóhannesson er annar þjóðhöfðinginn á Norðurlöndum sem tilkynnti um áramótin að hann hygðist láta af störfum.

DEILA