Fékk hluta úr breskri sprengju í trollið

Logi Þórðarson skoðar sprengjubrotið/ myndir: Áhöfnin á Björgu EA

Hluti úr breskri sprengju sem notuð var í seinni heimsstyrjöldinni kom í veiðarfæri ísfisktogarans Bjargar EA 7 í í fyrradag er skipið var við veiðar á Rifsbanka, norður af Melrakkasléttu. Þetta kemur fram í frétt á vef Samherja

Haft var samband við Landhelgisgæsluna sem staðfesti að brotið væri hluti af MARK XVII sprengju.

Árni Rúnar Jóhannesson skipstjóri segir að Hreinn Birkisson stýrimaður hafi orðið var við að torkennilegur hlutur væri kominn í trollið og því ákveðið að hífa inn veiðarfærin.

„Við áttuðum okkur fljótlega á því að þetta væri hluti úr sprengju og settum okkur því í samband við Landhelgisgæsluna, sem ber að gera við slíkar aðstæður. Sérfræðingar þar úrskurðuðu strax að um væri að ræða hluta af MARK XVIII sprengju sem breski herinn beitti í síðari heimsstyrjöldinni. Við sendum Landhelgisgæslunni myndir af sprengjubrotinu og nákvæma staðsetningu á því hvar það kom í veiðarfærin,“ segir Árni Rúnar.

„Það er annars ekkert grín að fá þessar gömlu sprengjur í veiðarfærin og um borð, lykilatriðið er hreyfa alls ekkert við þeim og allra síst að skila þeim aftur í hafið. Sem betur fer var þetta einungis hluti úr sprengju og engin hætta á ferðum. Við þurfum með öðrum orðum ekki að stíma í land, sem þarf að gera ef um er að ræða ósprungnar sprengjur.“

DEILA