Búvörusamningur: endurskoðun með litlum breytingum

Frá réttum í Minnihlíð í Bolungavík. Gísli Skarphéðinsson. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ríkið og Bændasamtök Íslands undirrituðu í gær samkomulag um endurskoðun á gildandi búvörussamningum. Í fréttatilkynningu frá Matvælaráðuneytinu segir að ekki verða gerðar grundvallarbreytingar á samningunum að svo stöddu. Helstu breytingar eru að hægt verður á niðurtröppun greiðslumarks í sauðfjárrækt sem helst þannig óbreytt frá árinu 2024 og út gildistíma samninga eða til 31. desember 2026. Þá eru gerðar minni háttar breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða. 

Í bókunum við samkomulagsskjalið er einnig lögð áhersla á sameiginlegt markmið samningsaðila um að landbúnaður á Íslandi verði kolefnishlutlaus eigi síðar en árið 2040 og að nauðsynlegt sé að hefja undirbúning innleiðingar á loftslagsbókhaldi landbúnaðarins.  Einnig er bókun um að samningsaðilar séu sammála því að forsendur fyrir tollasamningi Íslands og Evrópusambandsins frá árinu 2015 séu breyttar og að markmið yfirstandandi endurskoðunar verði að auka jafnvægi í samningnum.

Bændasamtökin töldu þörf á 12 milljörðum króna til þess að bregðast við alvaræegri stöðu landbúnaðarins en stjórnvöld lögðu fram 2,1 milljarða króna undir lok síðasta árs. Skipting þessara fjármuna var ekki borin undir samninganefnd bænda og voru stórir hópar bænda sem ekki nutu þessarar einskiptis aðgerðar segir á vef Bændasamtakanna. Lýsti stjórn Bændasamtakanna bæði vonbrigðum og áhyggjum vegna þessarar niðurstöðu.

Það er afstaða stjórnar Bændasamtaka Íslands að mikill áfangi hafi náðst því nú hafi stjórnvöld áttað sig á stöðunni og viðurkennt vandann sem atvinnugreinin stendur frammi fyrir. Aftur á móti liggi fyrir að viðbrögð stjórnvalda síðustu tveggja ára hafa ekki verið til þess fallin að snerta með fullnægjandi hætti á grafalvarlegri stöðu greinarinnar.Nú þurfi að treysta stoðirnar til framtíðar og tryggja stöðu bænda, afkomu þeirra og fyrirsjáanleika í starfsumhverfi atvinnugreinarinnar.

DEILA