Bolungavíkurhöfn: 13.677 tonna afli á síðasta ári

Frá Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í desember sl. var landað 1.513 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn.

Togarinn Sirrý ÍS var aflahæst með 596 tonn í sjö veiðiferðum.

Þrír snurvoðabátar lönduðu í mánuðnum samtals 480 tonnum. Ásdís ÍS var með 123 tonn, Þorlákur ÍS kom með 106 tonn og Bárður SH aflaði 251 tonn.

Þrír línubátar lögðu upp í Bolungavíkurhöfn í desember. Fríða Dagmar ÍS var með 212 tonn eftir 18 sjóferðir, Jónína Brynja ÍS 215 tonn en eftir 19 róðra og Indriði Kristins BA landaði 11 tonnum eftir eina útilegu.

22 þúsund tonn í heildina

Á árinu 2023 var samkvæmt tölum Fiskistofu landað 13.677 tonnum af bolfiski. Auk þess var landað um 8.000 tonnum af eldislaxi til slátrunar í Drimlu, sláturhúsi Arctic Fish. Tölur fyrir desember liggja ekki fyrir svo endanleg tala fyrir laxinn er ekki tiltæk.

Í heildina er þó ljóst að meira en 20 þúsund tonn af afla og eldisfiski var landað í Bolungavíkurhöfn á síðasta ári, líklega nálægt 22 þúsund tonn.

DEILA