Seint í gær birtist frétt á Ríkisútvarpinu um olíubrennslu Orkubús Vestfjarða sem er áætluð verða 3,4 milljónir lítra í orkuskorti Landsvirkjunar þetta kastið og kostar OV um 520 m.kr.
Á Bæjarins besta var einmitt í gærmorgun frétt sem minnti á þessa staðreynd, að orkuskömmtunin hæfist í dag. Fréttin á RÚV var að öllu leyti sögð á Bæjarins besta í byrjun ársins .
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bersýnilegt er að RÚV sækir fréttir til Bæjarins besta og í raun endurflytur þær á sínum miðli.
Í sjálfu sér er ekkert að því að Reykjavíkurfréttamiðlar lesi Bæjarins besta og sæki sér þangað efni til umfjöllunar. Það er hlutverk héraðsfréttamiðla að vekja athygli á málum ekki bara heima í héraði heldur einnig utan þess.
Ríkisútvarpið hefur um nokkurra ára skeið sparað sér að hafa fréttamann á Vestfjörðum og lætur fréttamenn á Vesturlandi eða Reykjavík sinna fjórðungnum. Það er gagnrýnivert og fréttaflutningur RÚV hefur að mörgu leyti borist þess merki. Hann hefur verið afar neikvæður og villandi í helstu málum, svo sem laxeldi og komum erlendra skemmtiferðaskipa. Meira jafnvægi hefur verið í umfjöllun í sumum öðrum málum. Þessi frétt um afleiðingar orkuskortsins á Vestfjörðum er ágæt og kemur málinu vel á framfæri á landsvísu.
Það hins vegar stingur dáldið í augu að þess er hvergi getið í RÚV fréttinni hvaðan hún er komin. Það er líka ekki í fyrsta sinn sem látið hjá líða að benda á hver vekur fréttina upp. Reykjavíkurmiðlarnir, og þar með talið RÚV, geta þess rækilega þegar þeir sækja fréttaefni hver til annars, hvar fréttin birtist fyrst.
Landsbyggðarfréttamiðlar eru alveg þess verðir að njóta sannmælis líka.
-k