Arnarlax: 120 m.kr. stjórnsýslusekt greidd, en með fyrirvara um lögmæti hennar

Mynd tekin af vef Arnarlax ehf.

Í nóvember 2022 lagði Matvælastofnun 120 m.kr. stjórnsýslusekt á Arnarlax með þeim rökum að fyrirtækið hefði ekki tilkynnt um strok eldislaxa og hefði ekki heldur brugðist við með því að setja út net til veiða á sleppifiski næstu 3 sólarhringa eftir strok.

Arnarlax hefur þegar greitt sektina en með fyrirvara um lögmæti hennar og kærði ákvörðun Mast með bréfi þann 22.2. 2023 til Matvælaráðráðherra, sem stefnir að því að kveða upp úrskurð í næsta mánuði. Verður það endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi, en unnt er að bera hana undir dómstóla.

Arnarlax mótmælir því að hafa brotið lög með því að vanrækja að tilkynna um strok. Krefst fyrirtækið þess að sektin verði felld niður og til vara að hún verði lækkuð verulega.

Segir í kæru Arnarlax að gat hafi uppgötvast á kví 11 við Haganes í Arnarfirði 29.8. 2021 og hafi það verið tilkynnt daginn eftir og sett út net í samræmi við fyrirmæli laganna. Veiddust 4 fiskar þar af 2 sjóbirtingar. Því hafi fyrirtækið farið að fyrirmælum laganna.

Matvælastofnun heldur því hins vegar fram að strok hafi hafist úr kvínni í snemma júní 2021 eða nærri 3 mánuðum áður en gatið uppgötvaðist. Um það er deilt milli Matvælastofnunar og Arnarlax. Lokið var að slátra upp úr kvínni 11. október 2022. Segir Mast að ekki hafi verið gerð grein fyrir 81.564 fiskum þegar bornar er saman tölur um útsetningu seiða í kvína, afföllum og slátruðum fiskum. Þá segir í sektarákvörðun Mast að veruleg minnkun hafi orðið snemma í júní í fóðrun „í kví 11 í kjölfar þess að skipt er um nótarpoka þann 7. júní 2021. Eina trúverðuga skýringin sem völ er á sem skýrir þessa breytingu í fóðrun er að fiskum í kvínni hafi fækkað verulega.“

Matvælastofnun telur aðgæsluleysi Arnarlax hafi verið vítavert og afleiðingar þess mjög alvarlegar. Þá segir Mast að sumarið eftir 2022 hafi veiðst 24 laxar í Arnarfirði sem rekja mátti til kvíar 11 við Haganes. Með því að tilkynna ekki um strok í júní hafi allir möguleikar til að grípa til viðeigandi ráðstafana bæði sumarið 2021 og einnig sumarið 2022 þegar mátti vænta endurkomu strokfiska í Arnarfjörð verið því ónýttir.

Arnarlax segir í kæru sinni að ómögulegt sé að einhver tilkynningaskyldur atburður hafi átt sér stað í júní 2021 og að Matvælastofnun byggir ákvörðun sína um strok í júní á alfarið á getgátum. Engin gögn hafi verið lögð fram sem styðji að eldislax hafi sloppið út í júní eða júli 2021. Ekki sé deilt um að gat fannst í ágúst og er það harmað en bent á að það hafi verið tilkynnt eins og vera ber.

Aðilar deila svo um þetta atriði og eru margvísleg gögn lögð fram og rök lögð fram á báða bóga en Matvælastofnun segir í sektarákvörðun sinni að Arnarlax hafi greiðlega veitt Matvælastofnun allar þær upplýsingar sem um hefur verið beðið. Ekki sé um nein önnur brot á tilkynningarskyldu stroki um að ræða og þá sé ekki að sjá að fyrirtækið hafi haft neinn ávinning af því að brotið hafi verið framið.

DEILA