Andlát: Jón Hallfreð Engilbertsson

Látinn er Jón Hallfreð Engilbertsson. Hann var fæddur á Ísafirði þann 22. nóvember 1955 og lést á Landspítalanum þann 30. janúar 2024. Hann ólst upp á Tirðilmýri á Snæfjallaströnd og gekk í Héraðsskólann í Reykjanesi. Jón Hallfreð nam útvarpsvirkjun við Iðnskóla Reykjavíkur og var með sveinspróf í pípulögnum, en auk þess nam hann prenthönnun. Árið 2008 lauk hann B.-Ed. grunnskólakennaraprófi frá Háskólanum á Akureyri.

Jón Hallfreð var búsettur á Ísafirði og vann þar m.a. við kennslu, prenthönnun hjá H-prenti og Bæjarins besta á Ísafirði í mörg ár, tækniteiknun hjá Skaginn 3X, umbrot bóka, við verslunarstörf, við málm- og skipasmíðar og margskonar önnur iðnaðarstörf. Jón Hallfreð kenndi við Tónlistarskólann í Bolungarvík, á Þingeyri og á Ísafirði.  Síðustu árin vann hann fyrir Héraðsskjalasafnið á Ísafirði og við myndmenntakennslu í Grunnskólanum á Ísafirði.

Jón Hallfreð Engilbertsson fór ungur að spila á gítar. Hann spilaði á námsárunum í hljómsveitum í Reykjavík og sótti jafnframt námskeið hjá Róbert Abraham Ottóssyni í Tónskóla þjóðkirkjunnar. Á Ísafirði hefur hann einnig spilað í hljómsveitum og á margskonar tónlistarviðburðum.  Jón Hallfreð lék á flest hljóðfæri og hafði einstakt tóneyra.

Jón Hallfreð fór að yrkja á fullorðinsárum, einkum tækifærisbragi, og árið 2021 kom út bókin Minningarrit um Jón Hallfreð Ingvarsson, sem var gefin út í minningu föðurbróður hans og nafna. Þar er að finna mörg kvæði eftir Jón Hallfreð. Einnig hefur hann sinnt tónsmíðum og er þekkt lag hans við eigin texta, „Snæfjallaströnd“, sem Karlakórinn Ernir hefur m.a. flutt og gefið út, en hann var félagi í kórnum hin síðustu ár.

Jón Hallfreð var kvæntur Helgu Sigfríði Snorradóttur aðstoðarskólastjóra. Börn þeirra eru Snorri Sigbjörn klippari á Stöð 2 og Kristín Harpa, lækna- og tónlistarnemi.

Bæjarins besta sendir aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.

DEILA