Andlát: Birgir Valdimarsson

Birgir Valdimarsson.

Birgir Breiðfjörð Valdimarsson lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 14. janúar sl. Birgir var fæddur í Efri-Miðvík í Aðalvík þann 30. júlí 1934. Foreldrar hans voru Valdimar Þorbergsson frá Efri-Miðvík fæddur 14. nóvember 1906 og Ingibjörg Guðrún Bjarnadóttir frá Flatey í Breiðafirði, fædd 19. september 1908. 

Hinn 20. júlí 1957 kvæntist  Birgir eftirlifandi eiginkonu sinni, Maríu ErluEiríksdóttur frá Keflavík, fædd 16. ágúst 1936. Foreldrar hennar voru Eiríkur Jóel Sigurðsson frá Keflavík, fæddur 21. mars 1895 og Stefanía Dómhildur Guðmundsdóttir frá Hvalsnesi, fædd 26. janúar 1900.

Börn Birgis og Erlu eru:

Stefanía, fædd 1. mars 1957. Maki hennar er Olgeir Hávarðarson, fæddur 4. ágúst 1955. Synir þeirra eru Olgeir Stefán sem er látinn, Hávarður, Birgir og Valdimar. Dætur Hávarðar eru Hildur Kristín og Sóley Erla.

Oddný Bára, fædd 4. apríl 1958. Maki hennar er Sigurjón Jóhann Sigurðsson, fæddur 10. apríl 1957. Börn þeirra eru Sæunn Sigríður Sigurjónsdóttir, maður hennar er Steingrímur Rúnar Guðmundsson. Dætur þeirra eru Svava Rún, Elma Katrín og Hildur Lóa. Birgir Örn Breiðfjörð, sambýliskona hans er Sara Fönn Einarsdóttir, börn hans eru Alexander Örn Breiðfjörð og Margrét Bára Breiðfjörð. Sambýliskona Alexanders er Aníta Ósk Logadóttir og eiga þau soninn Arnar Gauta Breiðfjörð. Kristín Ósk, sambýlismaður hennar er Haukur Örn Gunnarsson og dóttir þeirra er Hólmfríður Lilja. 

Valdimar Breiðfjörð fæddur 1. júní 1962.  Maki hans er Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fædd 28. september 1972. Börn hans eru Aldís María, Matthías Már, Þorbjörg Edda, Bríet Erla Breiðfjörð og Birgir Marzilíus. Synir Aldísar eru Róbert Blær og Valdimar Leó Bjarnasynir. Sambýliskona Matthíasar er Ásdís Eva Diðriksdóttir.

Erla Kristín Breiðfjörð, fædd 16. ágúst 1969. Maki hennar er Sigdór Rúnarsson fæddur 17. febrúar 1964, börn þeirra eru Indíana Breiðfjörð og Arnar Jóel. Synir Indíönu eru Kristófer Rúnar, Sigdór Vilhelm og Frosti Laufdal. Unnusta Arnars er Karolina Darnowska.

Birgir bjó í Aðalvík til 13 ára aldurs þegar hann flutti með fjölskyldu sinni til Ísafjarðar og bjó þar alla tíð eftir það. Hann starfaði hjá Flugfélagi Íslands á Ísafirði og síðar sem flugumferðarstjóri þar. Hann vann um tíma sem skrifstofustjóri hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga þar til hann réð sig sem útgerðarstjóra hjá Gunnvör sem gerði út Júlíus Geirmundsson. Síðar var hann útgerðarstjóri hjá Útgerð Hafþórs. Birgir tók svo við starfi húsnæðisfulltrúa Ísafjarðarbæjar þar sem hann starfaði þar til hann fór á eftirlaun.

Birgir var mikill fjölskyldumaður og stundaði íþróttir af kappi hvort sem það voru skíði, fótbolti, badminton, skák, bridge eða golf sem átti hug hans hin síðari ár.

DEILA