7.476 íbúar á Vestfjörðum um áramótin

Súðavík. Þar eru hlutfallslega flestir erlendir ríkisborgarará Vestfjörðum. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Þjóðskrá hefur birt íbúatölur í einstökum sveitarfélögum um síðustu áramót. Á Vestfjörðum voru 7.476 manns með lögheimili í fjórðungnum. Íbúum hefur fjölgað frá 1. desember 2020 þegar þeir voru aðeins 7.099 manns um 5,3%. Til samanburðar þá voru um áramótin á Norðurlandi vestra 7.494 manns eða eins 18 manns fleiri en á Vestfjörðum. Fyrir rúmum þremur árum, 1. desember 2020 voru íbúarnir 7.412. Sáralítil fjölgun hefur orðið á Norðurlandi vestra síðustu 3 ár eða aðeins 0,9%. Virðist stutt í að Vestfirðir taki fram úr Norðurlandi vestra hvað íbúafjölda varðar og lyfti sér upp úr því að vera fámennasta landssvæðið.

Litlar breytingar urðu í desember á Vestfjörðum. Í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 5 manns og um fjóra í Súðavík. Í Vesturbyggð og Reykhólahreppi fækkaði um fimm manns í hvoru sveitarfélagi um sig.

Í byrjun ársins 2024 voru 3.940 íbúar í Ísafjarðarbæ, 1.190 manns í Vesturbyggð og 1.018 í Bolungavík.

DEILA