Vestfirðir: íbúafjölgun helmingur landsfjölgunar

Bolungavíkurhöfn í maí 2023. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum fjölgaði síðustu 12 mánuði um 1,5% sem er helmingur fjölgunarinnar á landsvísu sem varð 3%.

Þann 1. desember sl. voru landsmenn orðnir 398.636 og hafði fjölgað um 11.565 síðan 1. desember 2022. Á Vestfjörðum varð einnig íbúafjölgun. Um síðustu mánaðamót voru 7.477 íbúar í fjórðungnum og fjölgaði um 107 á síðustu 12 mánuðum.

Fjölgun varð í þremur fjölmennustu sveitarfélögunum. Í Bolungavík um 2,9%, Ísafjarðarbæ 1,6% og Vesturbyggð 1,8%. Samtals fjölgaði um 118 manns í þessum þremur sveitarfélögum.

Í hinum sex sveitarfélögum sem eru á Vestfjörðum fjölgaði lítilsháttar í þremur Reykhólahreppi, Strandabyggð og Árneshreppi samtals um 10 manns og fækkaði í þremur Súðavík, Kaldrananeshreppi og Tálknafjarðarhreppi, samtals um 16 manns.

DEILA