Vestfirðir: fjögur sveitarfélög undir meðaltekjum – 1% af tekjujöfnunarframlögum

Frá Norðurfirði í Árneshreppi.

Fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum eru með meðaltekjur á íbúa á þessu ári undir landsmeðaltalinu samkvæmt yfirliti frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Í fimm sveitarfélögum eru meðaltekjurnar yfir landsmeðaltalinu. Miðað er við tekjur sveitarfélaga af útsvari og fasteignaskatti.

Sveitarfélögum landins er skipt í fjóra flokka eftir íbúafjölda og reiknað meðaltal tekna fyrir hvern flokk. Á Vestfjörðum eru fimm svetarfélög í fámennasta flokknum sem eru með íbúafjölda að 300 manns. Fjögur sveitarfélög eru í næstfámennasta flokknum , sem er með íbúafjölda frá 300 að 12.000 manns.

Fjögur af fimm sveitarfélögum í fámennasta flokknum eru með meðaltekjur á íbúa yfir meðaltalinu. Það eru Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur og Tálknafjarðarhreppur. Fá þau því ekkert tekjujöfnunarframlag frá Jöfnunarsjóðnum. Eitt sveitarfélag er undir mörkunum, Súðavíkurhreppur og fær hann 20.217 kr. á íbúa í jöfnunarframlag eða samtals 4,8 m.kr.

Meðaltekjur í þessu sveitarfélagaflokki eru 986.346 kr./íbúa og Jöfnunarsjóður bætir tekjur upp að 956.756 kr. Hæstar eru tekjurnar í Árneshreppi 1.155.859 kr., þá 1.043.584 í Tálknafirði og loks 1.018.878 kr. í Kaldrananeshreppi. Reykhólahreppur er með lægstu meðaltekjurnar 966.678 kr./íbúa en þó samt yfir því sem bætt er upp í. Í Súðavík eru meðaltekjurnar 936.539 kr./íbúa sem færir sveitarfélaginu tekjujöfnunina.

Fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum eru í næsta flokki. Af þeim er eitt, Strandabyggð með meðaltekjur yfir þeim mörkum sem bætt er upp að fyrir þann flokk sem eru 911.135 kr./íbúa. Meðaltekjurnar í Strandabyggð eru 953.217 kr./íbúa sem er vel yfir mörkunum og því fær sveitarfélagið ekkert tekjujöfnunarframlag.

Þrjú fjölmennustu sveitarfélögin á Vestfjörðum eru öll með meðaltekjur undir viðmiðunarmörkunum er reiknast vera 911.135 kr./íbúa.

Í Bolungavík voru meðaltekjurnar 895.022 kr./íbúa og eru greiddar 16.113 kr./íbúa í tekjujöfnunarframlag. Í Ísafjarðarbæ eru meðaltekjurnar 905.388 kr./íbúa og greiðast 5.747 kr./íbúa í framlag. Vesturbyggð er með hæstu meðaltekjurnar af þessum þremur 910.695 kr./íbúa og er jöfnunarframlagið því aðeins 440 kr./íbúa.

Jöfnunarframlagið til Bolungavíkur fyrir 2023 verður 1,4 m.kr. , 7,3 m.kr. til Ísafjarðarbæjar og 170 þúsund krónur til Vesturbyggðar. Auk þeirra þriggja fær Súðavík 4,8 m.kr. í tekjujöfnunarframlag. Samtals eru jöfnunarframlögin til Vestfjarða rétt innan við 14 m.kr. af 1,4 milljarði króna sem deilt er út til sveitarfélaga landsins eða 1%.

Athyglisvert er að hæstu meðaltekjur á Vestfjörðum af útsvari og fasteignaskatti eru í Árneshreppi 1.155.859 kr./íbúa sem er nærri 28% hærra en í Ísafjarðarbæ.

DEILA