Veiðileysuháls: seinkun nýs vegar mótmælt

Fjórðungssamband Vestfirðinga gerir kröfu um það í bréfi til Alþingis að gerð nýs vegar um Veiðileysuháls verði ekki frestað. Umhverfismati sé nær lokið og kostnaðaráætlun liggi fyrir. Fjórðungssambandið segir að landfræðilegar aðstæður og tenging Árneshrepp við aðra hluta landsins séu um margt líkar samgöngum við Grímsey, Vestmannaeyjar og Mjóafjörð. „Til þessara staða eru tryggðir í dag flutningar árið um kring með þungavörur og almennan farþegaflutning.Slíkt tryggir búsetufrelsi íbúa þessara staða, eins ætti að vera með Árneshrepp.“

Í samgönguáætlun í samgönguáætlun 2020-2034 sem samþykkt var á Alþingi í júní 2020 var gert ráð fyrir 300 m.kr. á 1. tÍmabili 2020-2024 og 450 m.kr. 2025-2029 við uppbyggingu nýs 12 km Strandavegar um Veiðileysuháls. Vegagerðin segir í umsögn sinni að með uppbyggingu 12 km vegar um Veiðileysuhóls verði mögulegt að halda Strandavegi opnum að Djúpuvík allt árið um kring, sé ferðaveður. Áætlaður kostnaður við byggingu 7 m breiðs vegar með bundnu slitlagi um Veiðileysuhóls er um 3.400 – 3.700 m.kr.

Í tillögu Innviðaráðherra að þingsályktun um samgönguáætlun 2024-2038 sem lögð var fram á Alþingi í október 2023 er verkefninu seinkað.

Verkefnisstjórin Áfram Árneshreppur segir í erindi sínu til Alþingis að „Sú fimm ára frestun sem boðuð er í drögum að nýrri samgönguáætlun er algjört reiðarslag fyrir samfélagið í Árneshreppi, sérstaklega þar sem áform og væntingar heimamanna hafa byggst á áformum um vegabætur í núgildandi vegaáætlun og enn fremur að allir íbúar eru fullkomlega meðvitaðir um að allri undirbúningsvinnu er lokið og ekkert skortir nema ákvörðunina um að setja verkefnið af stað.“

Leggur verkefnisstjórnin til að haldið verði við núgildandi samgönguáætlun og farið verði í útboð á lagningu heilsársvegar yfir Veiðileysuháls strax núna um áramótin.

DEILA