Vávest: tryggjum velferð barna og unglinga

Vá-Vest beitir sér gegn auknu aðgengi að áfengi.

Vá-Vest hefur um árabil sinnt forvörnum á norðanverðum Vestfjörðum. Í tilkynningu frá samtökunum segir að í dag sé ýmislegt sem bendir til að neysla ungmenna á áfengi, tóbaki og nikótínvörum sé að aukast og full ástæða er til að taka það alvarlega. Vávest hvetur til þess að áfengi, nikótín og nikótínvörur séu ekki seldar þeim sem ekki hafa aldur til.

„Á Íslandi gilda skýr lög um hámarksaldur þegar kemur að sölu á áfengi, tóbaki og nikótínvörum. Megin ástæða þessara laga er að neysla ungmenna á umræddum vörum hefur verulega slæmar heilsufarslegar afleiðingar fyrir þau. Því yngri sem unglingar byrja að neyta þeirra því skaðlegri verða afleiðingar neyslunnar. Því lengur sem unglingar sniðganga áfengi því ólíklegra er að þeir ánetjist fíkniefnum, svo hvert ár skiptir máli.

Það er samfélagsleg ábyrgð okkar allra að tryggja velferð barna og ungmenna. Ein leið til þess er að selja ekki áfengi, tóbak og nikótínvörur til þeirra sem ekki hafa aldur til. Við hvetjum ykkur til að upplýsa starfsfólk ykkar um hver hámarksaldurinn er til að kaupa umræddar vörur og fylgja því eftir með ábyrgum hætti.

Einnig hvetjum við söluaðila til þess að framfylgja lögum um sölu á tóbaki og nikótínvörum og gæta þess að starfsfólk hafi tilskilinn aldur til þess að afhenda þessar vörur í verslunum. Í lögum er kveðið á um að starfsfólk þurfi að hafa náð 18 ára aldri til að mega selja umræddar vörur.

Í sameiningu getum við skapað öruggara og heilbrigðara samfélag fyrir unga fólkið okkar.“ 

DEILA