Tálknafjörður: sveitarstjóri greiðir 68.804 kr í húsaleigu

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafirði.

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri í Tálknafirði greiðir 68.804 kr. á mánuði í húsaleigu fyrir Túngötu 42a, 105 fermetra raðhúsaíbúð. Húsaleigusamningurinn er gerður í maí 2020 og er húsaleigan bundin breytingum á byggingarvísitölu frá þeim tíma. Miðað við vísitöluna í nóvember 2023 er húsaleigan 84.260 kr./mánuði.

Það er Fasteignafélagið 101 sem er leigusali en það er að öllu leyti í eigu Tálknafjarðarhrepps.

Í júní og júlí í fyrra óskaði Bæjarins besta ítrekað eftir því að fá afrit af húsaleigusamningnum en hvorki Lilja Magnúsdóttir, oddviti né Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri urðu við því.

Laun sveitarstjóra eru 1.550.000 kr. á mánuði og er kveðið á um það í ráðningarsamningnum að hann leigi íbúð við Túngötu í eigu sveitarfélagsins en ekki kemur fram hver leigufjárhæðin er.

DEILA