Tálknafjörður: fjórir vanhæfir við umræðu og afgreiðslu á byggðakvótareglum

Tálknafjörður.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar tók fyrir úthlutun byggðakvóta á fundi sínum í síðustu viku. Fjórir af fimm sveitarstjórnarfulltrúum, Lilja Magnúsdóttir, Guðlaugur Jónsson, Jenný Lára Magnadóttir og Jón Ingi Jónsson vöktu athygli á vanhæfi sínu til að fjalla um málið og viku af fundi við afgreiðslu þess.
Í þeirra stað komu þrír varamenn inn á fundinn undir þessum dagskrárlið.
Úthlutun byggðakvóta til Tálknafjarðar á fiskveiðiárinu 2023/2024 er 285 þorskígildistonn. Rætt var um sérreglur sem sveitarstjórnir geta sett um úthlutun byggðakvótans. Samþykkt var samhljóða að sótt verði um að óbreyttar sérreglur verði fyrir Tálknafjörð vegna byggðakvóta fiskveiðiárið 2023/2024 frá fyrra fiskveiðiári með þeirri viðbót að breyting
verði á 3. mgr. 6 gr. reglurgerðar á þann veg að þá daga sem fiskvinnsla sér sér ekki fært að taka á móti afla í vinnslu verði heimilt að bjóða afla upp á fiskmarkaði.
Á síðasta ári var helmingi byggðakvótans úthlutað jafnt á milli báta á Tálknafirði og hinum helmingi kvótans úthlutans samkvæmt veiðireynslu árið á undan. Þá var skylt að landa aflanum í Tálknafjarðarhöfn. Auk þess vildi sveitarstjórnin fella brott ákvæði um vinnsluskyldu aflans þar sem engin fiskvinnsla væri innan sveitarfélagsins. Því hafnaði Matvælaráðuneytið og setti skilyrði um að byggðakvótanum yrði landað til vinnslu.

DEILA