Suðurtangi: unnið að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að hefja vinnu við breytingar á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 vegna breyttrar landnotkunar á Suðurtanga. Þegar er hafin endurskoðun deiliskipulaga á tanganum. Unnið er að heildarendurskoðun Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008-2020 en í ljós hefur komið að ekki er svigrúm til að bíða eftir gildistöku þess og því er farið í þessa aðalskipulagsbreytingu segir í fundargerð nefndarinnar.

Í skipulagslýsingu segir að hvati skipulagsbreytinga á Suðurtanga sé aukin eftirspurn atvinnulóða á Ísafirði síðustu misseri. Í núgildandi aðalskipulagi og fyrrnefndum deiliskipulögum er ekki gert ráð fyrir þeim umsvifum sem nú eru á svæðinu og eru fyrirséð, einkum í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi. Skapa þarf rými fyrir þessar og aðrar atvinnugreinar og samræma sífellt fjölbreyttari starfsemi hafnarinnar á Ísafirði. Ísafjarðarhöfn hefur þróast úr því að vera fyrst og fremst fiskihöfn yfir í það að þjóna fjölbreyttri flóru báta og skipa í takt við stefnu bæjarins og hafnarinnar.

Fjölga á atvinnulóðum á Suðurtanga og styrkja höfnina og starfsemi í tengslum við hana.

Skipulagssvæðið tekur til Suðurtanga, sunnan Ásgeirsgötu, sem er neðsti hluti Eyrarinnar. Skipulagssvæðið er um 23 ha að stærð. Í gildandi aðalskipulagi er Sundabakki skilgreindur sem hafnarsvæði og innan við hann er iðnaðarsvæði fyrir fjölbreyttan iðnað. Einnig er gert ráð fyrir íbúðarsvæði eftir endilöngum tanganum. Næst sjó á vestanverðum tanganum er svæði fyrir þjónustustofnanir og nyrst er svæði sem tilheyrir miðsvæði. Syðst á tanganum er grænt svæði í gildandi aðalskipulagi.

Í aðalskipulagsbreytingunni verður gert ráð fyrir að íbúðarbyggð á Suðurtanganum leggist af en í staðinn komi athafnasvæði. Gamli slippurinn og svæðið sunnan gömlu fjörunnar breytast úr svæði fyrir þjónustustofnanir í athafnasvæði. Gert er ráð fyrir gámasvæði á syðsta hluta tangans og því mun hafnarsvæðið ná til þess hluta.

DEILA