Samkaup: samstarfssamningur við Ísafjarðarbæ og Vesturafl

Mynd frá undirskrift samnings, nöfn frá vinstri til hægri: Harpa Stefánsdóttir (ráðgjafi félagsþjónustu á velferðarsviði Ísafjarðarbæjar), Margrét Geirsdóttir (sviðsstjóri velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar), Harpa Guðmundsdóttir (forstöðumaður Vesturafls og fjölsmiðjunnar) og Bergrún Ósk Ólafsdóttir (verkefnastjóri umhverfis- og samfélags hjá Samkaupum).

Samkaup hafa veitt mataraðstoð að verðmæti 75 milljón króna á síðustu árum og fyrirtækið undirritaði nýverið samning við Ísafjarðarbæ og geðræktarmiðstöðina Vesturafl með það að markmiði að sporna við matarsóun og förgun matvæla á svæðinu. Verkefnið er hluti af markvissu átaki Samkaupa um allt land um mataraðstoð gegn matarsóun.  

Hættum að henda, frystum og gefum! er yfirskrift verkefnisins sem varðar útdeilingu matvæla úr verslun Nettó á Ísafirði og Kjörbúðinni í Bolungarvík til stuðnings við velferðarverkefni Ísafjarðarbæjar og Vesturafls. 

Skjót viðbrögð starfsmanna þegar frystar gáfu sig

Tildrög verkefnisins voru skjót viðbrögð starfsmanna Ísafjarðarbæjar, Samkaupa og geðræktarfélagsins Vesturafls sem tryggðu að betur fór en á horfðist þegar kælar og frystar gáfu sig í Kjörbúðinni í Bolungarvík fyrr á árinu. Í stað þess að farga matvælum sem þar voru geymd, söfnuðu starfsmennirnir matnum saman og gáfu gáfu einstaklingum, öldruðum og barnafjölskyldum á yfir 30 heimilum. 

Verkefnið hefur hefur verið til reynslu í nokkra mánuði með góðum árangri en með undirritun samningsins er samstarfið orðið formlegt. Fjöldi skjólstæðinga Velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar hafa tekið á móti matvælum sem eru í óaðfinnanlegu ástandi en eru t.d. að nálgast síðasta söludag.

„Þessi samstaða skiptir sköpum í bæjarfélaginu og okkur þykir ótrúlega gott að þessar vörur hafi komist í hendur þeirra sem mest þurfa á þeim að halda, frekar en að enda í ruslinu engum til gagns. Það er hagur okkar allra sem samfélag að draga sem mest úr matarsóun og það er nokkuð sem við höfum gert um árabil Samkaupum,“ segir Bergrún Ósk Ólafsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og samfélags hjá Samkaupum. 

Samkaup veitt mataraðstoð fyrir 75 milljónir

Verkefnið er liður í umfangsmikilli samfélagsstefnu Samkaupa, eiganda og rekstraraðila verslana Nettó og Kjörbúða, sem hefur skýr markmið er snúa að mataraðstoð gegn matarsóun. Mikil áhersla er lögð á að samfélagsábyrgð sé samþætt allri starfsemi fyrirtækisins og hafa Samkaup til að mynda gefið mat og aðrar nauðsynjavörur fyrir 75 milljónir króna á síðusta ári. Samkaup reka yfir 60 verslanir víðs vegar um landið og rík áhersla er lögð á að styðja við nærsamfélagið á hverjum stað með fjölbreyttum hætti.

Ásamt nýjum samningi á Vestfjörðum hafa Samkaup starfað um árabil með Hjálpræðishernum í Reykjavík, Reykjanesbæ og Akureyri og séð til þess að um 300 einstaklingar fái að borða og geti sótt mat- og nauðsynjavöru til að taka með sér heim alla virka daga.

DEILA