Reykhólahreppur telur sameiningu við önnur sveitarfélög ekki tímabæra

Frá Reykhólum.

Alþingi samþykkti 2021 að stefnt skyldi að því að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags væri 1000 manns.

Sveitarfélög með færri en 250 íbúa voru einnig skylduð til að hefja sameiningarviðræður við önnur sveitarfélög, eða vinna álit um stöðu sveitarfélagsins, getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum og um þau tækifæri sem felast í mögulegum kostum sameiningar sveitarfélagsins við annað eða önnur sveitarfélög.

Reykhólahreppur skilaði í vor greinargerð um stöðu sameiningarviðræðna við nágrannasveitarfélögin.

Í haust barst svo umsögn innviðaráðuneytisins og niðurstaða þess er að sveitarfélagið er hvatt til að huga að þeim tækifærum sem kunna að felast í sameiningu við önnur sveitarfélög.

Sveitarstjórn hefur tekið á dagskrá til tveggja umræðna málefni sameiningar og bókaði um málið eftir síðari umræðu þann 13. desember:

„Sveitarstjórn Reykhólahrepps telur forsendur til þess að ganga til formlegra sameiningaviðræðna við önnur sveitarfélög ekki sterkar, vegna verkefnastöðu sveitarfélagsins og vinnu við hringrásarsamfélagið. Samþykkt samhljóða.“

Þar sem er talað um verkefnastöðu er átt við vinnu við Græna iðngarða, hringrásarsamfélagið á Reykhólum og uppbyggingu húsnæðis í tengslum við það.

DEILA