Rafmagnshópferðabíll til Ísafjarðar

Trausti Ágútsson og Helga Héðinsdóttir við nýju bifreiðina.

Í gær afhenti bílaumboðið Askja fyrsta rafmagnshópferðabílinn til Vestfjarða. Um er að ræða 19 manna rútu sem Vestfirskar ævintýraferðir hafa fest kaup á. Fer rútan í rekstur á mánudaginn og verður í áætlunarferðum milli Ísafjarðar og Bolungavíkur.

Mikil eftirspurn er eftir þessum bifreiðum og sagði fulltrúi Öskju að bíða þyrfti á annað ár eftir fleiri rútum af þesssari gerð.

Bifreiðin er að stofni til Mercedes Benz, en er breytt í Litháen og telst hún eftir þær vera af Altas gerð. Verðið á rafmagnsbílum af þessari gerð er um tvöfalt hærra en sambærilegir dísel bílar en að teknu tilliti til fenginna styrkja, segir Trausti Ágústsson, eigandi Vestfirskra ævintýraferða, er verðið um þriðjungi hærra. Eftir því sem næst verður komist kostar venjuleg rúta knúin af díselvél af þessari gerð um 17-18 m.kr.

Hins vegar verður rekstrarkostnaður rafmagnsrútunnar umtalsvert lægri en díselknúinnar bifreiðar.

Vestfirskar ævintýraferðir eru umsvifamiklar í þjónustu við erlenda ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar og eru með 25 rútur á sínum snærum auk þess að vera með frístundarútu og áætlunarferðir á norðanverðum Vestfjörðum.

Eigendur og starfsmenn ásamt fulltrúum Öskju og Bláma.

Fyrsti rafmagnsbíllinn af hópferðabílagerð á Vestfjörðum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

DEILA