Nýtt frumvarp um lagareldi kynnt í samráðsgátt

Lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda frumvarp matvælaráðherra um lagareldi.

Frumvarpið er afrakstur umfangsmikillar stefnumótunarvinnu sem hófst í byrjun árs 2022.

Markmið frumvarpsins er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til verðmætasköpunar innan ramma sjálfbærrar nýtingar og með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagt er til að innleiddar verði þær aðgerðir sem fram koma í drögum að stefnu fyrir lagareldi sem hafa m.a. það að markmiði að lagareldi verði stjórnað á grundvelli skilgreindra mælikvarða sem stuðla þar með að því að greinin hafi sem minnst áhrif á umhverfi sitt, vistkerfi eða villta stofna, og sem tryggja að dýravelferð og sjúkdómar séu með besta hætti á heimsvísu

Meginþættir frumvarpsins eru eðli máls samkvæmt þeir kaflar er lúta að sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi.

1) Sjókvíaeldi

Með frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar frá núgildandi lögum um fiskeldi. Meginefnisbreytingar eða nýmæli frumvarpsins frá gildandi lögum um fiskeldi eru eftirfarandi:

– Áhættumat erfðablöndunar gefið út í fjölda fiska

– Skýrara hlutverk Hafrannsóknastofnunar

– Lögfesting núgildandi friðunarsvæða og friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar

– Áhættustýrt skipulag með innleiðingu smitvarnarsvæða

– Breytt fyrirkomulag úthlutunar

– Breytt fyrirkomulag á útfærslu og framkvæmd áhættumats erfðablöndunar

– Aukið eftirlit Matvælastofnunar

– Lækkun laxahlutar vegna stroks

– Breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla og lúsasmits

– Hertar reglur um kynþroska fisks

– Breyttar úthlutunarreglur og álagning vegna Umhverfissjóðs sjókvíaeldis

– Breytt álagning framleiðslugjalds

– Breytt fyrirkomulag Fiskeldissjóðs

– Skýrara hlutverk Fisksjúkdómanefndar

– Samræmd hugtakanotkun

2) Landeldi

Með þessu frumvarpi er í fyrsta sinn fjallað sérstaklega um landeldi og er það gert í þriðja þætti frumvarpsins sem skiptist í fjóra kafla. Viðamesti hluti umfjöllunarinnar varðar smitvarnir og dýraheilbrigði og er að finna í XV. kafla eða alls 10 greinar en að öðru leyti gilda áfram ákvæði laga um varnir gegn fisksjúkdómum nr. 60/2006 og ákvæði laga um velferð dýra nr. 50/2013. Um starfrækslu og eftirlit landeldisstöðva er fjallað í XVII. kafla. Um útgáfu rekstrarleyfis til landeldis og afturköllun þess er síðan fjallað um í köflum XVI og XVIII. Með frumvarpinu er reynt að draga fram þau sérkenni sem skilja að landeldi frá sjókvíaeldi sem helgast af ólíku eldisumhverfi og ólíkum áskorunum, jafnt fyrir rekstraraðila og Matvælastofnun sem annast eftirlit með starfseminni.

3) Hafeldi

Í fjórða þætti frumvarpsins er fjallað um hafeldi sem skiptist í tvo kafla; XIX. kafli (Almennt um hafeldi) og XX. kafli (Rannsóknir vegna hafeldis). Hafeldi er grein sem ekki er hafin á Íslandi en aukinn áhugi hefur verið á starfseminni síðastliðin ár. Til að komast að því hvort og hvar hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu þarf að ráðast í fjölmargar og ítarlegar rannsóknir. Sníða þarf ramma utan um þær rannsóknir. Þá verður einnig að skapa ramma utan um leyfisveitingaferlið en miklu máli skiptir að fyrirsjáanleiki og skýr löggjöf sé fyrir hendi til að styðja við fyrstu skref greinarinnar.

Frumvarpið má sjá hér á samráðsgátt, hægt er að skila inn athugasemdum til og með 3. janúar 2024.

DEILA