Í síðustu viku fór fram sýnataka við Mjósund á Ísafirði til að athuga niðurbrot olíumengunar á fyrrum olíubirgðastöð Olíudreifingar. Grafin var ein hola og fljótlega fannst megn bensínlykt og reyndist ekki þörf á frekari sýnatöku í minnisblaði verkefnisstjóra á umhverfis- og eignasviði.
Þar kemur fram að Olíudreifing muni leggja til að lóðunum verði skilað til Ísafjarðarbæjar með þeirri kvöð að við uppgröft vegna mögulegra bygginga á reitunum taki Olíudreifing mengaðan jarðveg til meðhöndlunar á Mávagarði líkt og getið er um Áætlun um meðhöndlun jarðvegs frá 2012.
Vegna væntra húsbygginga á svæðinu leggur Olíudreifing til að meðfram undir botnplötu og meðfram sökklum verði sett öndunarrör til að hafa möguleika á útsogi, reynist þess þörf.
Kostnaður við lagnir er sáralítill og aðferðin vel þekkt og skilar árangri að sögn starfsmanna Olíudreifingar.
Í samkomulagi Ísafjarðarbæjar og Olíudreifingar frá 2012 er þess getið að Olíudreifing skili lóðunum svo þær verði hæfar sem iðnaðarlóðir, en áformað er að skipuleggja svæðið undir íbúðabyggð. Gerðar eru meiri kröfur vegna mengunar jarðvegs á íbúðarsvæðum.
Næsta skref er að Olíudreifing skilar inn aðgerðaráætlun til Ísafjarðarbæjar.