Minning: Ólafur Þ. Jónsson

F. 14. júní 1934 – D. 23. nóv. 2023.

Jarðsunginn frá Glerárkirkju 4. desember 2023.

               Hinn 24. febrúar árið 1945 fórst Es Dettifoss, skip Eimskipafélags Íslands, í hafi.  Það var að koma frá New York í Bandaríkjunum á leið til heimahafnar.  Var skipið á siglingu skammt norður af Írlandi í lítilli lest frá Belfast til Skotlands þar sem ætlunin var að taka saman við stærri flota er sigla skyldi heim til Íslands. Kafbátur mun hafa skotið á skipið og var Dettifoss sokkinn á sjö mínútum. Um borð voru 14 farþegar og 31 skipverji.  30 manns björguðust en 15 fórust.

               Tveir afkomendur Boga bónda og kaupmanns í Búðardal Sigurðssonar frá Sæunnarstöðum í Hallárdal í Vindhælishreppi, voru í skipshöfninni.   Fórst annar þeirra, brytinn á Dettifossi, Jón Sigurður Karl Kristján, sonur Boga og eiginkonu hans, Ragnheiðar Sigurðardóttur Johnsen frá Flatey á Breiðafirði. Jón lærði matreiðslu á Hótel d´Angleterre í Kaupmannahöfn. En meðal þeirra skipsmanna sem björguðust var dóttursonur Boga, Bogi Þorsteinsson loftskeytamaður síðar yfirflugumferðarstjóri á Keflavíkurflugvelli.  Hann var sonur Þorsteins bónda í Ljárskógaseli Gíslasonar og Alvildu Maríu Friðriku Bogadóttur sem Bogi eignaðist fyrir hjónaband.  Móðir Alvildu var Sigríður Guðmundsdóttir frá Kollugerði í Vindhælishreppi síðar húsfreyja á Kornsá í Undirfellssókn í Austur-Húnavatnssýslu. Alvilda átti fyrr Rögnvald Magnússon á Neðri-Brunná í Saurbæ og við honum soninn Magnús Skóg Rögnvaldsson vegaverkstjóra í Búðardal og bóksala.

               Fráafi Boga í Búðardal var Sigurður Þorsteinsson bóndi á Reykjavöllum á Neðribyggð í Skagafirði.  Hann varð úti á Kili ásamt Reynistaðarbræðrum árið 1780.  Langafi Ragnheiðar konu Boga var Bogi stúdent og fræðimaður Benediktsson á Staðarfelli höfundur Sýslumannaæva.  Seinni kona Boga var Ingibjörg Sigurðardóttir kennslukona frá Kjalarlandi í Vindhælishreppi.  Þau Bogi voru systrabörn.

               Faðir Ólafs Þ. Jónssonar var Jón bryti Bogason, móðir hans Anna Sigurrós Levoríusardóttir frá Skálum á Langanesi en  kjörmóðir Ólafs var Þórdís Finnsdóttir skipstjóra á Akureyri fyrri eiginkona Jóns Bogasonar.  Hún lést árið 1939 fertug að aldri.  Gekk Jón  síðar að eiga Friðmeyju Ósk Pétursdóttur sjómanns Sigurðssonar á Vesturgötu 51 í Reykjavík og gekk hún Ólafi í móðurstað.

               Drengur undi Ólafur, sem þá var kallaður Onni, langdvölum hjá föðursystur sinni Ragnheiði Bogadóttur frá Búðardal og eiginmanni hennar Gunnari Ólafssyni húsgagnasmíðameistara og bifreiðarstjóra næturlækna í Reykjavík. Stundum og lengstum á Frakkastíg 6a í Reykjavík en hríðum í sumarbústaðnum góða (Stóra-Klöpp núna) við Hólmsárbrú.

               Til er ljósmynd sem tekin hefur verið undir suðurhlið bústaðarins í sólskini. Á henni sést Onni litli, bráðlaglegur, klæddur dökkum jakka.  Aðrir sem borin verða kennsl á eru hjónin Gunnar og Ragnheiður og tvær dætur þeirra þær Jóhanna og Ingibjörg.

               Ólafur var stórvel gefinn, víðlesinn, róttækur mjög í viðhorfi sínu til þjóðfélagsmála og ritfær í besta lagi.  Ekki var amalegt að hlusta á hann fjalla um Skafta Þóroddsson lögmann í “Nýjustu fréttum af Njálu” sem endurfluttar voru í Ríkisútvarpinu 4. nóvember síðastliðinn í umsjá Einars Karls Haraldssonar. 

               Guð blessi minningu drengsins góða Ólafs Þ. Jónssonar.  Guð verndi, huggi og styrki ástvini hans alla.

               Gunnar Björnsson, pastor emeritus. 

DEILA