Samtökin Laxinn lifi kröfðust þess formlega með bréfi dags 27. okt. til Matvælastofnunar að stofnunin myndi stöðva tafarlaust rekstur fiskeldis Arctic Fish í Tálknafirði og Patreksfirði þar sem rekstrarleyfið hefði runnið úr gildi 27. ágúst 2023. Vísað var til ákvæða laga um fiskeldi þar sem segir ef fiskeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi sé í gildi skuli Matvælastofnun stöðva starfsemina.
Matvælastofnun hafnaði kröfunni þann 20. nóvember og sagði ekki rétt eins og mál standa að málefnaleg sjónarmið væru fyrir því að stöðva starfsemina og fyrirskipa slátrun á eldisfiski sem væri í kvíunum. Benti Mast á að fyrirtækið hefði tímanlega sótt um framlengingu á rekstrarleyfinu en upp hefðu komið nýjar kröfur um áhættumat siglinga og ekki hefði af hálfu stjórnvalda legið fyrir hver ætti að vinna það og það tafið afgreiðslu umsóknarinnar. Fyrirtækið hefði ekki haft neitt um þá töf að segja heldur þvert á móti hafi það haft réttmætar væntingar um að umsóknin yrði afgreidd áður en leyfið rann úr gildi.
Úrskurðarnefndin vísaði málinu frá
Náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi kærði synjun Matvælastofnunar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem vísaði málinu frá síðasta föstudag. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að samtökin ættu ekki kæruaðild að málinu.Umhverfisverndarsamtök ættu aðild að ákvörðunum um að veita leyfi til framkvæmda sem falla undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana og gætu kært þær en í þessu tilviki væri ákvörðunin sú að hafna því að stöðva rekstur eldisfyrirtækisins skv. umræddu leyfi og kæruaðildin næði ekki til þess.
Krafa um milljarða króna tjón
Krafa samtakanna Laxinn lifi um stöðvun á rekstri skv. umræddu leyfi var jafnfram krafa um að slátra öllum fiski sem væri í kvíunum eins og berlega kemur fram í synjun Matvælastofnunar. Það er kæranda ljóst og einnig hitt að fyrirtækið yrði fyrir stórfelldu tjóni ef orðið yrði við kröfum samtakanna. Krafan er líklega einmitt sett fram í því skyni að koma fjárhagslegu höggi á fyrirtækið og koma því á kné og stöðva þannig sjókvíaeldið.
Hægt er að leggja gróft mat á mögulegt tjón. Í þessum kvíum sem leyfið nær til eru um hálf milljón fiska, kannski eitthvað meira. Eftir því sem næst verður komist var meðalþyngdin um 2 kg.
Fyrir fisk sem ekki er stærri en þetta fæst ekki hátt verð og líklega ekki mikið meira en nemur sláturkostnaði. Það þýðir að allur kostnaður sem búið er að stofna til fellur á fyrirtækið, það gæti verið um 1,5 milljarður króna.
Þessi fiskur verður verðmikill við það að ná sláturstærð ca 5,5 kg og ætla má að þessu hálfa milljón fiska myndu seljast á um 3 milljarða króna í fyllingu tímans. Krafan um að stöðva starfsemina er krafa um að hætta fóðrun og drepa fiskinn og hafa þessar tekjur af fyrirtækinu.
Söfnuðu fé til málaferla
Fyrir fjórum árum sendu þessi samtök Laxinn lifi út bréf til til ýmissa aðila svo sem veiðifélaga. Erindið var að fara fram á fjárframlög til þess að standa straum af kostnaði við málaferli bæði á stjórnsýslustigi og fyrir dómstólum, sem samtökin hafa staðið fyrir, til þess að fá eldisleyfi ógilt. Sérstaklega var nefnt um árangur af starfi samtakanna að ógilt hafi verið leyfi Háafells í Ísafjarðardjúpi og að leyfi í Tálknafirði og Patreksfirði hafi sömuleiðis verið ógilt árið 2019 sem hafi leitt til afskipta Alþingis með því að veita bráðabirgðaleyfi.
Andstæðingar sjókvíaeldis á Vestfjörðum neyta allra bragða til þess að stöðva uppbygginguna á Vestfjörðum sem fylgir nýtingu náttúrulegar auðlindar í fjörðunum. Það leynir sér ekki.
-k