Ísafjörður: stúdentagarðar teknir í notkun

Halldór Halldórsson flytur ávarp sitt.

Á föstudaginn var haldin sérstök opnunarhátíð á Ísafirði í tilefni af því að lokið er framkvæmdum við seinna hús stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða, en í því eru 20 íbúðir. Fyrra húsið hefur þegar verið tekið í notkun og eru íbúðirnar20 í því leigðar út til nemenda við Háskólasetrið.

Fjölmargir komu og skoðuðu húsakynnin. Ávörp fluttu Halldór Halldórsson, formaður  stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Stúdentagarða Háskólaseturs Vestfjarða, Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Henry Eneste frá byggingarverktakanum Seve , Kjartan Árnason arkitekt og Peter Weiss, forstöðumaður Háskólasetursins.

Heildarkostnaður við bæði húsin verður um 1170 m.kr. Stofnframlög fengust frá ríkinu sem eru 18% af kostnaði og frá Ísafjarðarbæ 12% auk þess sem sérstakt byggðaframlag 189 m.kr. var veitt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun lánar það sem upp á vantar til langs tíma og gert er ráð fyrir að húsleiga standi undir láninu og rekstri húsanna.

Húsið sem nú var að klárast verður leigt nemendur við Háskólasetrið frá og með næsta hausti, en fram að því verða íbúðirnar leigðar til skammtímaleigu.

Myndir:seve/Sigríður Ó. Kristjánsdóttir.

DEILA