Ísafjörður: seinkun skóladags í frekari skoðun

Grunnskólinn á Ísafirði.

Þar sem áhugi reyndist á því að seinka byrjun skóladags á unglingastigi í Grunnskóla Ísafjarðar verður send út önnur könnun til að fá afmarkaðri niðurstöður og hugmyndir að útfærslum. Út frá þeim niðurstöðum mun fræðslunefnd taka loka ákvörðun. Þetta kemur fram í svari Hafdísar Gunnarsdóttur, sviðsstjóra hjá Ísafjarðarbæ við fyrirspurn Bæjarins besta.

Í október gerði Ísafjarðarbær könnun um vilja til þess að seinkna byrjun skóladags í unglingastigi Grunnskóla Ísafjarðar. Foreldrar, nemendur og kennarar voru innt eftir afstöðu sinni til þess hvort svarandi væri hlynntur því að seinka til reynslu á næsta skólaári byrjun skóladags hjá unglingastiginu og í annarri spurningu voru gefnir tveir kostir um byrjun skóladags , annars vegar kl 8:40 og hins vegar kl 9:40.

Alls bárust 200 svör, 8 frá kennurum, 97 frá foreldrum og 95 frá nemendum.

Niðurstöður voru þær að 45,5% vildu byrja seinna en nú er og 42% vildu það ekki. 12,5% var alveg sama.

Yfrgnæfandi meirihluti svarenda vildu hefja skóladaginn kl 8:40 eða 87,5% og 12,5% vildu seinni tímann.

DEILA