Ísafjarðarbær: varar við afnámi tollfrelsis minni skemmtiferðaskipa

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar geldur varhug við því og hefur verulegar áhyggjur af afleiðingum þess að afnema nú tollfrelsi til handa skemmtiferðaskipum sem skráð eru erlendis en eru notuð í siglingum innan íslenska tollsvæðisins í allt að fjóra mánuði á hverju tólf mánaða tímabili. Einkum er um að ræða minni skemmtiferðaskip sem taka frá 13 upp í 500 farþega.

Umsögn Ísafjarðarbæjar var send í gær til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem hefur frumvarp fjármálaráðherra til umfjöllunar og Bæjarins besta hefur fengið afrit af umsögninni.

Bæjarráðið segir í umsögninni um þetta atriði: „Það vekur undrun að þessi grein skuli birtast í frumvarpinu þar sem ekki var minnst á þessa breytingu í áformum um lagasetningu sem kynnt voru í lok september. Þannig má leiða líkum að því að áhrif af slíkri lagasetningu séu ekki nægjanlega vel grunduð.

Mikil hætta er á að skemmtiferðaskip hætti svokölluðum hringsiglingum við Ísland ef þetta verður að veruleika, sem gætti leitt til þess að viðkomuhöfnum skipa fækkar. Þetta gæti fyrst og fremst haft áhrif á leiðangursskip sem hafa haft viðkomu í minni höfnum landsins. Þessu til stuðnings er vísað til umsagnar frá AECO, samtökum minni leiðangursskipa á norðurslóðum um sama mál.“

Þá segir að slíkar breytingar ætti ekki að gera nema að undangenginni skoðun á efnahag og samfélagi. Er rakið í umsögninni hverjar tekjur hafna sveitarfélagsins eru sem og ferðaþjónustuaðila:

„Tekjur hafna Ísafjarðarbæjar af móttöku skemmtiferðaskipa eru umtalsverðar og eru tekjurnar í ár t.a.m. 450 m.kr., og skipta verulegu máli. Farþegar skemmtiferðaskipa skipta einnig miklu máli fyrir samfélag og ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum. Könnun sem gerð var árið 2018 um eyðslu ferðamanna sem komu til Ísafjarðarhafnar með skemmtiferðaskipum leiddi í ljós að hver farþegi eyddi að meðaltali 16 þ.kr. í ferðir og rúmum 11 þ.kr. í aðra neyslu í landi. Eyðsla áhafnarmeðlima var tæp 9. þ.kr. Ljóst er að um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða, og þær þarf að taka inn í reikninginn þegar svona umfangsmikil breyting er gerð sem getur breytt ferðatilhögun skemmtiferðaskipa og farþega þeirra.“

Ísafjarðarbær víkur í umsögn sinni einnig að annarri áformaðri lagabreytingu sem er að setja gistináttaskatt á skemmtiferðaskipin. Er þeirri breytingu ekki andmælt en Ísafjarðarbær leggur áherslu á að gistináttaskatturinn renni til sveitarfélaga eins og boðað er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með þeirri ráðstöfun væri hægt að byggja upp sterkari innviði á ferðamannastöðum.  

DEILA