Hljómsveitin ÆFING 55 ára

Það bar til rétt fyrir jól árið 1968 að boð kom frá stjórn Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri um almennan félagsfund, fimmtudaginn þann 27. desember 1968, í Samkomuhúsinu.
Hin nýstofnaða Hljómsveit Æfing (sem í upphafi hét Víkingar) hafði verið vikum og mánuðum saman við æfingar í Samkomuhúsinu. Gerðu þér hlé á æfingum þessa stund meðan fundurinn í Skildi fór fram.
Í lok fundarins gerðist það að félagsmálafrömuðurinn Hendrik Ole Tausen, sem var að hasla sér völl í félagsmálum í þorpinu, bauð hljómsveitinni að stíga á svið og taka lagið sem og þeir þáðu með þökkum og kvíðagleði. Fluttu þeir svo lagið –Simon says- við undrun og ánægju viðstaddra.
Þar voru m.a. Lilja Guðmundsdóttir -skó-, Kristján V. Jóhannesson, Hermann Björn Kristjánsson, Jóhannes Ívar Guðmundsson, Siguður Helgason, Kolbeinn Guðmundsson, Bjarni Alexandersson, Hendrik Tausen og fleiri og var mikið klappað.
Yngstur á þessum fundi var 15 ára skólastrákur úr Héraðsskólanum að Núpi í jólafríi heima á Flateyri. Það var Björn Ingi Bjarnason hvar æskuheimilið (Júlluhús) var næsta hús við Samkomuhúsið og hann hafði fylgst manna best með æfingum um sumarið og fram að skóla. Hefur hann lýst breytingunni sem varð á meðlimum í hljómsveitinni þessa haustmánuði við breytingarnar á rólegum stúdentum í Frakklandi í róttæka hugsjónamenn sem urðu þarna fyrr um árið 1968 og frægt er í sögunni. – Hljómsveit var orðin til á Flateyri.“
45 árum síðar (árið 2013) er Æfing búin að gefa út geisladisk með 12 lögum þar sem mannlíf- menning þessa tíma í firðinum og víðar vestra hefur verið sett í glæsilega umgjörð tóna og texta. Þessi diskur Hljómsveitarinnar Æfingar er meistaraverk.
Í hljómsveitinni Æfingu í upphafi vor:
Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigmar Ólafsson, Eiríkur Mikkaelsson og Gunnlaugur Mikkaelsson. Ingólfur R. Björnsson, sem gert hafði garðin frægan með hljómsveitinni Geislum á Akureyri, kom síðann til liðs við ÆFINGU.
Hljómsveitin Æfing starfaði á tveimur tímaskeiðum þ.e. tímabilið á Flateyri frá 1968 og fram yfir 1980 og lék þá á dansleikjum um alla Vestfirði og reyndar víðar um land. Meðlimir Æfingar á þessu tímabili voru allmargir en Árni Benediktsson og Kristján J. Jóhannesson voru með alla tíð.
Seinna tímabilið er frá 1990 og þá eingöngu á samkomum sem Önfirðingafélagið í Reykjavík hafði skipulag á eða kom að með einum eða öðrum hætti.
Í hljómsveitinni Æfingu á þessu tímabili hafa verið:
Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson (látinn), Siggi Björns, Jón Ingiberg Guðmundsson, Ásbjörn Björgvinsson, Halldór Gunnar Pálsson og Önundur Hafsteinn Pálsson.

DEILA