Fimm Vestfirðingar fá listamannalaun

Eiríkur Örn Norðdahl.

Tilkynnt var í gær um úthlutun listamannalauna fyrir næsta ár. Til úthlutunar úr launasjóðnum eru 1600 mánaðarlaun úr sex launasjóðum: hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda. Fjöldi umsækjenda var 1.032, þar af 924 einstaklingar og 108 sviðslistahópar. Úthlutun fær 241 listamaður.

Mánaðarleg upphæð starfslauna listamannalauna árið 2024 verður tilkynnt eftir að fjárlög ársins hafa verið samþykkt á Alþingi. Starfslaun listamanna árið 2023 voru 507.500 kr. Um verktakagreiðslur er að ræða.

Úr launasjóði rithöfunda var úthlutað 555 mánaðalaunum. Þar fengu tveir Vestfirðingar úthlutun. Eiríkur Örn Norðdahl, Ísafirði fékk 12 mánaða laun og Dýrfirðingurinn Vilborg Davíðsdóttir fékk 9 mánaða laun.

Vilborg Davíðsdóttir.

Elfar Logi Hannesson frá Bíldudal fékk þriggja mánaða laun úr launasjóði sviðslistafólks.

Úr launasjóði tónlistarflytjenda fékk Ísfirðingurinn Herdís Anna Jónasdóttir þriggja mánaða laun.

Uppfært kl 12:00: Ísfirðingurinn Rannveig Jónsdóttir fékk 6 mánaða laun úr launasjóði myndlistarmanna. Hefur fyrirsögn fréttarinnar verið breytt til samræmis.

DEILA