Fiskeldi: leyfi verði ótímabundin, framseljanleg og veðsetjanleg

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra flytur ávarp á ráðstefnu fiskeldisfyrirtækja.

Matvælaráðherra birti í gær í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um lagareldi. Umsagnarfrestur er til 3. janúar 2024. Um er að ræða nýja heildarlöggjöf um fiskeldi bæði í sjó og á landi. Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september 2024 og þá falli úr gildi lög um fiskeldi frá 2008 og lög frá 2019 um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð.

Lögð er til sú breyting að rekstrarleyfi til sjókvíaeldis verði framvegis ótímabundin en í dag eru leyfi veitt til 16 ára. Öll rekstrarleyfi skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi sem eru í gildi við gildistöku laganna skulu breytast í ótímabundin leyfi.

Laxahlutur framseljanlegur

Skilgreindur verður svonefndur laxahlutur hvers rekstrarleyfis og er lagt til að leyfilegur lífmassi í núverandi rekstrarleyfum til eldis á frjóum laxi verði umreiknaður, hvað hlutfall varðar, í fjölda laxa.

Með öðrum orðum, ef að tiltekinn rekstrarleyfishafi hefur í dag heimild sem næmi 20.000 tonnum, eða 18,78% af núgildandi 106.500 tonna hámarkslífmassa, þá myndi sami rekstrarleyfishafi öðlast rétt til eldis á 18,78% af þeim heildarfjölda laxa sem fram kæmi í reglugerð um heildarlaxafjölda og væri sú tala laxahlutur viðkomandi rekstrarleyfishafa samkvæmt lögunum.

Margfeldi laxahlutar við heildarlaxafjölda gefur svo laxafjölda viðkomandi rekstrarleyfishafa sem er sá fjöldi laxa sem rekstrarleyfishafi getur haft í sjó á hverjum tíma.

Úthlutun og skráning laxahlutar samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum til eldis á frjóum laxi segir í 38. grein frumvarpsdraganna.

Heimilt að framselja milli svæða

Heimilt verður að framselja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa milli smitvarnarsvæða, sem í dag nefnast sjókvíaeldissvæði, að fenginni staðfestingu Matvælastofnunar og skal í tilkynningu greint frá kaupverði eða leiguverði laxahlutar. Heimilt verður að veðsetja rekstrarleyfi ásamt laxahlut.

Í skýringum segir að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð skilgreint tiltekna landshluta með
þeim hætti að flutningur heimilda frá viðkomandi landshluta sé óheimill þótt að flutningur laxahlutar innan landshlutans sé frjáls.

Því má bæta við skýringuna að ráðherra getur þá líka ákveðið að framsal heimilda milli landshluta sé heimill og banda má á að að ef ráðherrann ákveður ekkert þá er framsalið heimilt milli landshluta skv. frumvarpsgreininni og hægt að flytja framleiðsluheimildir frá Vestfjörðum.

Þau takmörk eru sett á leiguframsal á laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa að ekki verður heimilt að leigja til eldis meira en tveggja kynslóða í senn sem aldar eru óslitið af leigutaka að teknu tilliti til hvíldartíma. Að því loknu skal leigusala skylt að selja viðkomandi laxahlut eða nýta hana til eigin eldis.

-k

DEILA