COP28: hvatt til 75% aukningar á fiskeldi

Kort af Eyjafirði.

Í ályktun nýafstaðinnar loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP28 er hvatt til þess að fiskeldi verði aukið um 75% á árunum fram til 2040 frá 2020 í því skyni að auka matvælaframleiðslu heimsins. Fiskeldið er talið gefa heilbrigða matvöru með mun minna kolefnisspori en t.d. kjötframleiðsla og aukið fiskeldi stuðli því að draga úr loftslagsáhrifum iðnaðarframleiðslu heimsins. Alls undirrituðu 158 þjóðir yfirlýsinguna.

Í frumvarpi Matvælaráðherra Svandísar Svavarsdóttur sem er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda er lagt til að banna fiskeldi með laxfiskum á stórum svæðum við strandlengju landsins. Bætt er við núverandi svæði sem eru lokuð sjókvíaeldi bæði Eyjafirði og Öxarfirði.

Þessar áherslur sæta gagnrýni fyrirtækisins Laxóss ehf á Árskógssandi í Eyjafirði í umsögn þess um frumvarpið. Vísar fyrirtækið til ályktunar COP28 og segir frumvarpið skjóta skökku við. Ekki eigi að útiloka aðferðir sem hægt væri að rökstyðja að muni hafa hverfandi lítil áhrif á lífríkið í fjörðunum og vatnakerfi þeirra.

Í umsögninni segir að bæði í nútíð og í framtíð munu ýmsar aðferðir verða ákjósanlegar sem ekki ætti að útiloka fyrir fram með lögum. Aðferðir sem byggja á að minnka eða koma í veg fyrir vandamál vegna laxalúsa, minnka eldistíma í kvíum, lokuð eldiskerfi gætu komið til greina og því væri rétt að hafa þannig opið fyrir ýmsar lausnir sem gætu hentað.

Lýst er fyrirhuguðu fiskeldi Laxóss ehf., sem á að rísa á Árskógssandi við Eyjafjörð á næstunni og getur gefið íslensku landeldi rekstrarlegt forskot til að styrkja afkomu sína með því að hafa eldisfiskinn í sjókvíum einungis síðasta sumarið og haustið fyrir slátrun. Þegar fiskurinn er orðin á bilinu 1 til 2.5 kg að þyngd, í landeldi er hann settur út í kvíar að vori og kominn í sláturstærð fyrir veturinn. Aðferðin er bæði vistvæn, örugg og kostnaðarsparandi segir í umsögninni.

lágt kolefnisspor og hollur

„Hafa ber í huga að Íslenskur eldifiskur er hollur til neyslu, sýklalyfjanotkun nánast engin, inniheldur allar tegundirnar af lífsmikilvægum amínósýrum og inniheldur hollar fitusýrur eins og Omega 3 og Omega 6. Hann hefur eitt lægsta kolefnisspor af allri sambærilegri fæðu sem finnst á markaði. Íslenskt fiskeldi getur haft gríðarlega þýðingu fyrir íslenskt hagkerfi og atvinnulíf ef vandað verður til verka varðandi setningu laga og regluverks.“

Lítið sem ekkert sjókvíaeldi hafi verið í Eyjafirði og hnignandi ástand bleikjustofna í firðinum eigi sér aðrar skýringar en eldið.

Umsögnina ritar Guðmundur Valur Stefánsson, cand scient í fiska, vatna- og sjávarlíffræði, framkvæmdastjóri Laxóss ehf. og bóndasonur úr Hörgárdal.

DEILA