Aðgerðir ríkisstjórnar til stuðnings bændum – 1,6 milljarður króna

Í gær voru kynntar tillögur sem þrír ráðherrar Svandís Svavarsdóttir matvælaráðaherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir , fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, lögðu fyrir ríkisstjórn til stuðnings þeim bændum sem eiga í fjárhagserfiðleikum vegna núverandi efnahagsástands.

Í tillögunum er lögð áhersla á að stuðla að nýliðun og kynslóðaskiptum í greininni með aðstoð við yngri bændur sem eru undirstaða landbúnaðarframleiðslu framtíðarinnar. Jafnframt er lögð áhersla á að stuðningskerfi styðji við atvinnugreinina með skilvirkum hætti í samræmi við áherslur stjórnvalda og gagnist þeim fjölskyldubúum sem eiga í hvað mestum vanda til skemmri tíma litið vegna hækkaðs fjármagnskostnaðar og langvarandi afkomubrests.

Áætlað er að stuðningur verði greiddur til 982 bænda fyrir árslok 2023, alls 1.600 milljónir króna.

Tillögurnar eru eftirtaldar:

  • Ungbændastuðningur. Greitt verði álag á fjárfestingar í samþykktum umsóknum um nýliðunarstuðning á árunum 2017-2023, samtals 600 m.kr.
  • Viðbótarfjárfestingastuðningur. Greitt verði álag á fjárfestingu í samþykktum umsóknum um fjárfestingarstuðning í sauðfjárrækt og nautgriparækt á árunum 2017-2023, samtals 450 m.kr.
  • Viðbótarbýlisstuðningur. Greitt verði sérstakt framlag til þeirra sauðfjárbænda sem stunda sauðfjárrækt að meginatvinnu og eru með 300 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri, samtals 450 m.kr.
  • Viðbótargripagreiðslur á holdakýr – Greitt verði sérstakt framlag til þeirra bænda sem fengu greiddar gripagreiðslur á holdakýr árið 2023, samtals 100 m.kr.
  • Áfram verði unnið að aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu landbúnaðar til framtíðar, svo sem varðandi lánakosti Byggðastofnunar, hagtölusöfnun í landbúnaði, afleysingarþjónustu bænda, tækifæri til hagræðingar og samstarfs og kyngreiningu á nautgripasæði.

nýliðunarstuðningur mikilvægur

Í morgun sögðust samtök ungra bænda í yfirlýsingu fagna tillögunum og segja að rekstrarskilyrðin í greininni hafi gerbreyst vegna aukinnar vaxtarbyrði til viðbótar við verulegar verðhækkanir á öllum aðföngum. 

vaxtarbyrði til viðbótar við verulegar verðhækkanir á öllum aðföngum. 

„Fyrir unga bændur skipta tillögur hópsins um nýliðunarstuðning auðvitað miklu máli. Þær eru mikilvæg skref í áttina að því að leiðrétta þá erfiðu stöðu ungra bænda sem hafa hafið búskap á síðustu árum og munu þær tryggja íslenskum sveitum líf til lengri framtíðar. Miklu munar um fjárhagslega stuðninginn sem einnig er almenn viðurkenning á því að þjóðin þurfi á ungu fólki að halda til þess að standa vörð um áframhaldandi fæðuöryggi sitt og framleiðslu fyrsta flokks matvæla við skilyrði sem væntanlega eru hvergi í heiminum betri en einmitt á Íslandi.“

En samtökin benda á að þótt öllum stuðningstillögum verði hrint í framkvæmd sé ljóst að áfram verður til staðar stórt gat í rekstri fjölmargra bænda sem ýmist falla undir þessar stuðningsaðgerðir eða ekki. Bændur muni áfram þurfa að drýgja tekjur sínar til að mynda með aukavinnu utan búrekstursins með tilheyrandi fórnarkostnaði gagnvart fjölskyldulífi sínu og frítíma. „Við slíkar aðstæður er illt að búa“ segir í yfirlýsingunni.

DEILA