Vísindaportið: Upplifun heilbrigðisstarfsfólks af umönnun íbúa Súðavíkur eftir snjóflóðin í janúar 1995

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir.

Vísindaportið verður á sínum stað kl. 12.10 í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og er Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir gestur Vísindaportsins að þessu sinni.

„Átakanleg upplifun en þegar upp er staðið stöndum við sterkari“. Upplifun heilbrigðisstarfsfólks af umönnun íbúa Súðavíkur eftir snjóflóðin í janúar 1995

Erindið er unnið upp úr lokaverkefni Sigríðar Láru Gunnlaugsdóttur í meistaranámi í heilbrigðisvísindum. Þar var skoðuð upplifun heilbrigðisstarfsmanna af umönnun íbúa Súðavíkur eftir snjóflóðin í Súðavík 1993. Eftir snjóflóðin sköpuðust ófyrirséðar aðstæður sem mögnuðust upp vegna lokaðra samgönguleiða og margra daga óveðurs. Heilbrigðisstarfsfólk á Ísafirði bar hitann og þungann af líkamlegri og andlegri umönnun Súðvíkinga fyrstu dagana eftir flóðin. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá innsýn í upplifun heilbrigðisstarfsfólks sem sinnti einstaklingum sem lentu í mannskæðu hamförunum og kanna hvort sú lífsreynsla starfsfólksins hafi haft áhrif á þeirra líf og störf  

Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Hún lauk BS námi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands 1993 og hefur starfað sem sjúkraþjálfari á endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Ísafirði frá útskrift. Síðastliðið vor útskrifaðist hún með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun í heilbrigðiskerfinu frá Háskólanum á Akureyri

Í alvarlegum náttúruhamförum er heilbrigðisstarfsfólk oft kallað út til að sinna fórnarlömbum hamfaranna. Eftir snjóflóð í Súðavík 1995 sköpuðust ófyrirséðar aðstæður sem mögnuðust upp vegna lokaðra samgönguleiða og margra daga óveðurs. Heilbrigðisstarfsfólk á Ísafirði bar hitann og þungann af líkamlegri og andlegri umönnun Súðvíkinga fyrstu dagana eftir flóðin. Tilgangur rannsóknarinnar var að fá innsýn í upplifun heilbrigðisstarfsfólks sem sinnti einstaklingum sem lentu í mannskæðu hamförunum og kanna hvort sú lífsreynsla starfsfólksins hafi haft áhrif á þeirra líf og störf. Rannsóknin var eigindleg, notaður var Vancouver-skólinn í fyrirbærafræði. Alls voru tekin þrettán viðtöl við tíu heilbrigðisstarfsmenn. Rauði þráðurinn í niðurstöðunum var að þetta var erfið lífsreynsla en viðmælendur voru sammála um að þau tækju úr henni bæði faglega og persónulega reynslu. Greind voru aðalþemun vanmáttur, úrvinnsla og vöxtur eftir áföll. Stærsti þátturinn í úrvinnslu viðmælenda eftir atburðinn var að tala við sitt nærsamfélag og þá einna helst sitt samstarfsfólk. Margir hefðbundnir verkferlar innan stofnunarinnar riðluðust þessa daga og skipting starfa eftir deildum máðist að miklu leyti út. Starfsfólk vann þar sem þess var þörf og allir voru tilbúnir að sinna þeim verkum sem þeim voru falin. Eftir að hafa sinnt fólki sem lenti í mannskæðum hamförum, við erfitt og oft átakanlegt vinnuumhverfi, taldi heilbrigðisstarfsfólkið sem rætt var við að það bæri ekki neikvæð sálræn eftirköst. Þvert á móti tók starfsfólkið bæði faglegan og persónulegan þroska úr þessari reynslu og taldi að samtöl og samskipti við samstarfsfólk hafi átt stóran þátt í úrvinnslu atburðarins. Það er mikilvægt að stjórnendur heilbrigðisstofnanna og forsvarsmenn heilbrigðismála í landinu hafi í huga að skapa starfsumhverfi sem gefur starfsfólki kost á að tengjast og tala saman til að vinna úr erfiðri reynslu eftir áföll og mikið álag.


Erindinu er streymt í gegnum zoom og er hlekkurinn:

https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

DEILA