Í Vísindaporti föstudaginn 24. nóvember mun Arnheiður Steinþórsdóttir sagnfræðingur halda erindi sem nefnist: Frá munaðarvöru yfir í þarfa þing, saumavélar á Íslandi 1865 til 1920.
Fyrstu saumavélarnar bárust til Íslands upp úr miðri 19. öld. Í kjölfarið átti sér stað athyglisverð þróun þegar saumavélum fjölgaði ört hér á landi. Í erindinu verður fjallað um hvernig saumavélar fóru úr því að vera munaðarvara yfir í þarfaþing sem finna mátti á nær hverju heimili. Saumavélunum fylgdu allskyns breytingar, ekki síst þegar kom að störfum kvenna innan og utan heimilis. Þær boðuðu ný tækifæri, vinnusparnað og jafnvel frelsi, þó sú hafi ekki alltaf verið raunin. Sagt verður frá þessari þróun og m.a. leitað svara við eftirfarandi spurningu: er með sanni hægt að kalla saumavélina táknmynd nútíma og frelsis í íslensku samhengi?
Arnheiður er með meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands en erindið segir frá meistararitgerðinni sem hún lauk við í byrjun árs. Hún er nýflutt aftur heim til Ísafjarðar ásamt unnusta sínum og syni eftir að hafa numið sagnfræði síðustu ár. Áherslur hennar innan sagnfræðinnar eru kvenna- og kynjasaga auk sögu efnismenningar.
Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna slóðina hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079