Tekjur sveitarsjóðs Vesturbyggðar munu hækka um nærri 15% á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir 2024 sem lögð hefur verið fram. Tekjurnar verða alls liðlega 2 milljarðar króna en er spáð að þær verði 1.754 m.kr. á þessu ári.
Stærsti tekjuliðurinn eru útsvar og fasteigaskattur. Hann verður 1.120 m.kr. á næsta ári skv. áætluninni en verður 986 m.kr. á þessu ári. Hækkunin milli ára er 134 m.kr. eða 13,6%. Framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga hækkar úr 481 m.kr. í 565 m.kr. sem er 17,4% hækkun.
Laun eru langstærsti útgjaldaliðurinn og eru áætluð verða 1.108 m.kr. hjá sveitarsjóði (A – hluta) á næsta ári en verða 950 m.kr. á þessu ári. Hækkunin er um 16,7%.
Vaxtagjöld lækka milli ára. Þau eru áætluð verða 157 m.kr. á þessu ári en spáð að verði 133 m.kr. á næsta ári.
Niðurstaða A hluta Vesturbyggðar varðandi reksturinn er jákvæð á næsta ári um 4 m.kr. en verður neikvæð um 44 m.kr. á þessu ári.
Til fjárfestinga verður varið 296 m.kr. á næsta ári sem er svipað og á þessu ári 316 m.kr.
Gert er ráð fyrir því að skuldir og skuldbindingar A hlutans verði í lok næsta árs 2.517 m.kr. og 2.344 m.kr. í lok þesssa árs.
Þegar tekið er saman yfirlit yfir allan rekstur sveitarfélagsins ( A og B hluta) bætist við m.a. hafnarsjóður, vatnsveita og fráveitur verður afgangur af rekstri 69 m.kr. á næsta ári þar sem afgangur er af rekstri hafnarsjóðs og veitnanna.
Heildarskuldir og skuldbindingar verða 2.923 m.kr. í lok næsta árs og til fjárfestinga verður varið 446 m.kr.
Fjárhagsáætluninni var vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn ásamt áætlun fyrir árin 2025-2027.