Vesturbyggð: lækka vatns- og fráveitugjald

Smábátar að landa í Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hyggst lækka vatnsgjald á íbúðarhúsnæði á næsta ári úr 0,38% í 0,28% og vatnsgjald á annað húsnæði úr 0,5% í 0,4%. Þá er lagt til að lækka fráveitugjald á íbúðarhúsnæði og verður það 0,28% í stað 0,38% af fasteignamati. Önnur fasteignagjöld verða óbreytt samkvæmt tillögunni. Fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði verður 0,55%, af fasteignum í B flokki 1,32%og af C flokki 1,65%.

Lækkunin á fráveitu- og vatnsgjaldinu af íbúðarhúsnæði er um 26%.

Tillögurnar hafa verið ræddar í bæjarstjórn og var þeim vísað til síðari umræðu sem verður væntanlega á næsta bæjarstjórnarfundi.

Bæjarstjórn samþykkti að útsvarshlutfall fyrir 2024 haldist óbreytt frá fyrra ári og verður það 14,74%.

DEILA