Tvær stjörnur eftir listakonuna Katrínu Björk

Um hálsmenið tvær stjörnur segir Katrín Björk að það séu um sjö ár síðan hún fékk hugmyndina að þessu hálsmeni:

„Úr meninu má sjá tvær stjörnur, eða verur, sem styðja hvor við aðra. Þegar hugmyndinni að hálsmeninu laust niður í kollinn á mér þá langaði mig að tjá svo margt með tveimur stjörnum. Menið stendur fyrir kærleika, von, samvinnu og ekki síst vináttu. Vináttan felur svo margt í sér sem ég sé í tveimur stjörnum. Þetta er gleði eins og dansandi manneskjur eða vinur að styðja vin og svo mætti lengi telja. Það getur hver og einn fundið sína merkingu í hálsmeninu.“

Eftir að hafa rissað upp hönnunina tók Haraldur gullsmíðameistari, við og smíðaði gripinn.

Hálsmenið er úr silfri og á 45 cm silfurkeðju, – gullfallegt.

Það var svo fyrir tveimur árum að það fékkst styrkur úr Þróunarsjóði Flateyrar til að fullvinna menið og hefja framleiðslu á því og þá gat verkefnið farið af stað fyrir alvöru.

Tvær stjörnur er hálsmen sem hannað var af Katrínu Björk Guðjónsdóttir og er nú selt til styrktar Stöndum saman Vestfirðir, sem er að safna fyrir endurhæfingartækjum á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða bæði á Patreksfirði og Ísafirði.

DEILA