Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar þjófnað í Bolungarvík sem átti sér stað um liðna helgi.
Þýfið eru svokallaðir GPS hattar sem voru teknir voru af vinnuvélum.
Að sögn lögreglunnar hleypur andvirði þess sem var stolið á mörgum milljónum króna.
Lögreglan gaf í gær út tilkynningu þar sem óskað var eftir upplýsingum um grunsamlegar mannaferðir í Bolungarvík frá eftirmiðdegi föstudagsins 17. nóvember til klukkan 21.30 að kvöldi laugardagsins 18. nóvember.
Auk þessa hefur lögregla óskað eftir upplýsingum um það hvort fyrirtæki staðsett í Bolungarvík og við leiðina frá Bolungarvík út af norðanverðum Vestfjörðum búi yfir myndefni úr öryggismyndavélakerfum sem nýst gætu við rannsókn málsins.