Þingeyri: Vísindaport í Blábankanum

Fullt var út að dyrum í Blábankanum þegar fræðafólk á Vestfjörðum héldu þar Vísindaport föstudaginn 10.11. Fræðafólkið kemur frá Rannsóknarsamfélagi Vestfjarða sem er þverfaglegur hópur fólks sem stundar rannsóknir á Vestfjörðum og nágrenni. Fyrr um daginn heimsótti hópurinn Grunnskólann á Þingeyri en elstu nemendur hans komu einnig til að hlýða á erindin í Vísindaporti.

Meðal þeirra sem tóku til máls voru Christian Gallo frá Náttúrustofu Vestfjarða en hann skoðar til dæmis fjölda hinna ýmissa fuglategunda á Vestfjörðum og meðal annars hvítmáfinn sem er einungis hér og á Snæfellsnesi. Christian er líka einn þeirra vísindamanna sem rannsaka áhrifa fiskeldis á sjávarbotninn.

Alexandra Tyes doktorsnemi við HÍ sagði frá fornleifafræði neðansjávar á Vestfjörðum og hvernig samfélög og kafarar geta unnið saman í því samhengi. Hún minntist einnig á Baskasetrið í Djúpuvík sem verður afar spennandi miðstöð sögu og samfélags þegar það verður tilbúið árið 2025.

Brack Hale kennari við Háskólasetur Vestfjarða sagði frá því hvernig hann notaði Flickr til að rannsaka fólksferðir og þar með ágang ferðamanna á gróður í Sviss og sömu aðferð væri tvímælalaust hægt að nota á Vestfjörðum.

Þá fræddi Anja Nickel frá Náttúrustofu viðstadda um það hvernig hún framkvæmir skurðaðgerðir á fiskum í þeim tilgangi að koma fyrir nema hjá þeim. Neminn sendir svo hljóðmerki í móttökutæki, sem minnir einna helst á góðan kaffibrúsa í útliti.

Fleiri góðir vísindamenn tóku til máls og sögðu frá rannsóknum sínum sem allar snerta á samfélögunum hér vestra, á einn eða annan hátt.

Fylgst með af athygli.

Anja Nickel frá Náttúrustofu Vestfjarða.

Alexandra Tyes doktorsnemi við HÍ.

Alexandra Tyes og Brack Hale kennari við Háskólasetur Vestfjarða.

Myndir: Sæbjörg Freyja Gísladóttir.

DEILA