Theresa Henke rannsakar flundru

Theresa Henke

Lífríki sjávar við Ísland er afar viðkvæmt fyrir breytingum og ekki er vitað hvaða áhrif nýjar ágengar tegundir hafa á náttúrulegt jafnvægi.

Grjótkrabbi er t.d. ein af þeim tegundum sem hefur tekið sér bólfestu við Íslandsstrendur á ótrúlega fáum árum og sama má segja um flundruna sem hefur náð ótrúlegum árangri í íslensku lífríki á undraskömmum tíma.

Miðað við dreifingu flundrunnar er ljóst að hún er fyrir löngu farin að hrygna í íslensku vistkerfi.

Theresa Henke er í hópi ungra vísindamanna sem rannsaka nýjar tegundir í lífríki vatns hérlendis en hún beinir sjónum sínum að flundrunni í doktorsrannsókn sinni eftir að hafa rannsakað þennan sama flatfisk í meistaraverkefninu sínu. Frá þessu er sagt á vef Háskóla Íslands.

Þótt fjöldi dýrategunda í hafinu geti synt eða borist miklar vegalengdir er útbreiðsla nýrra tegunda í hafinu að mestu leyti af manna völdum að því að talið er. Flestar tegundir eru taldar berast milli svæða með kjölvatni skipa sem er þá losað inni á svæðum fjarri þeim stöðum þar sem það var upprunalega tekið. Í kjölvatninu eru þá gjarnan hrogn, lirfur og smáseiði framandi tegunda sem ná svo að festa sig í sessi á nýjum slóðum.

Talið er að þúsundir framandi tegunda fái ný heimkynni með þessum hætti á hverju einasta ári. Það þarf þó ekki að vera þannig með þá tegund sem hér er til umfjöllunar, evrópsku flundruna (Platichthys flesus), því hvort tveggja hrogn og smáseiði tegundarinnar eru sviflæg og geta hugsanlega borist langt með hafstraumum.

Þessi tegund er nú skilgreind sem hugsanlega ágeng því á röskum tveimur áratugum hefur hún dreift sér nánast umhverfis allt landið.

Þótt flundran hafi fyrst sést við suðvesturströndina um síðustu aldamót er hún nú komin í ósa og ár á Hornströndum en sá sem hér lemur lyklana hefur ítrekað séð hana lengst uppi í ám í friðlandinu.

DEILA